Samtal við Sigfús, leiðsögn með Einari Fali Ingólfssyni

Einar Falur Ingólfsson tekur á móti gestum og segir frá sýningunni Samtal við Sigfús - Í fótspor Sigfúsar Eymundssonar.
Sýningin opnaði 8. mars og á henni eru ljósmyndaverk Einars Fals og Sigfúsar Eymundssonar (1837-1911). Einar Falur vinnur út frá og í sjónrænu samtali við myndverk Sigfúsar en hann hefur skrifað um ljósmyndir Sigfúsar og fjallað um þær við kennslu í ljósmyndasögu árum saman. Undanfarin fjögur ár hefur Sigfús, eða myndir hans, verið fararstjóri á ferðalögum Einars Fals víða um land. Hefur hann bæði endurtekið valin sjónarhorn forvera síns sem og tekið sína eigin myndramma á sömu stöðum og Sigfús myndaði á, í einskonar dagbókarskráningu og samtali um land, sögu og sjónarhorn.
Á sýningunni er úrval þessara samtalsverka Sigfúsar og Einars Fals, að hluta ný prent eftir glerplötum eldri ljósmyndarans en einnig valin frumprent frá 19. öld, þegar myndirnar voru teknar. Um er að ræða fágæta dýrgripi í eigu Ljósmyndasafns Íslands sem afar sjaldan sjást.
Leiðsögn með Einari Fali veitir gestum einstaka innsýn í sýninguna og ljósmyndaferil Sigfúsar.