Samtal við Sigfús

Einar Falur Ingólfsson (f. 1966) vinnur út frá og í sjónrænu samtali við myndverk Sigfúsar Eymundssonar (1837-1911) eins og endurspeglast í undirtitli sýningarinnar, Samtal við Sigfús. Samhliða sýningunni gefur Þjóðminjasafnið út bókina Aftur – Í fótspor Sigfúsar Eymundssonar, sem í verða rúmlega 130 ljósmyndir og texti eftir Einar Fal.
Einar Falur hefur skrifað um ljósmyndir Sigfúsar og fjallað um þær við kennslu í ljósmyndasögu árum saman. Undanfarin fjögur ár hefur Sigfús, eða myndir hans, verið fararstjóri á ferðalögum Einars Fals víða um land. Hefur hann bæði endurtekið valin sjónarhorn forvera síns sem og tekið sína eigin myndramma á sömu stöðum og Sigfús myndaði á, í einskonar dagbókarskráningu og samtali um land, sögu og sjónarhorn.
Á sýningunni í Þjóðminjasafninu verður úrval þessara samtalsverka Sigfúsar og Einars Fals, að hluta ný prent eftir glerplötum eldri ljósmyndarans en einnig valin frumprent frá 19. öld, þegar myndirnar voru teknar. Um er að ræða fágæta dýrgripi í eigu Ljósmyndasafns Íslands sem afar sjaldan sjást.
Sýningin og bókverkið er þriðja viðamikla verkefnið sem Einar Falur vinnur í sjónrænu samtali við myndverk eftir listamann úr fortíð. Árið 2010 opnaði í Bogasal Þjóðminjasafnsins sýningin Sögustaðir – Í fótspor W.C. Collingwoods, en þar vann Einar Falur út frá vatnslitamyndum breska listamannsins og fagurfræðingsins W.C. Collingwoods sem varðveitar eru í Þjóðminjasafninu. Í framhaldinu var sýningin sett upp víðar á Íslandi og í Scandinavia House í New York. Samnefnd bók Einars Fals var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Árið 2016 var sýning Einars Fals Landsýn – Í fótspor Johannesar Larsen sett upp í Johannes Larsen Museet í Danmörku og síðar í Hafnarborg. Samnefnd bók var gefin út af Crymogeu.
Samtal við Sigfús – Í fótspor Sigfúsar Eymundssonar er sýning sem enginn unnandi ljósmyndalistarinnar ætti að láta fram hjá sér fara.
Í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafninu er varðveitt albúm sem lá frammi í ljósmyndastofu Sigfúsar Eymundssonar við Lækjargötu, eflaust fyrir gesti að skoða og velja sér myndir úr. Það er augljóst af úrvalinu, sem eru myndir frá löngu árabili, að Sigfús hefur sett albúmið saman þegar langt var liðið á ferilinn, einhvern tímann undir lok nítjándu aldar. Þetta er fyrsta þekkta slíka úrval mynda ljósmyndarans sem lengi lét sig dreyma um að gefa út bók eða möppur með völdum sjónarhornum sínum á land og þjóð og reyndi að fá styrki til slíks verks.
Albúmið hefur safnnúmerið Lpr. 1152 og var gjöf Guðmundar Björnssonar landlæknis (1864-1937) til Þjóðminjasafnsins. Fremst í albúminu eru tvær ljósmyndir af konum, önnur í peysufötum en hin í skautbúningi. Þá koma tvær opnur með Reykjavíkurmyndum en fleiri myndir þaðan aftar; alls eru 14 af höfuðstaðnum. Síðan eru sjö ljósmyndir frá Þingvöllum, tvær teknar við Brúará, tvær sömuleiðis við Geysi og tvær við Gullfoss. Í albúminu er líka mynd af Ölfusárbrú og önnur tekin við vígslu Þjórsárbrúar. Þá má sjá mynd af Hvítárvatni á Kili, Krísuvík og mynd sem Sigfús tók í Vestmannaeyjum, tvær af skipinu Camoens í Norðurfirði á Ströndum, ein af íbúum og gestum við bæinn Haukagil í Hvítársíðu, og aðrar frá Borgarnesi, ármótum Grímsár og Hvítár í Borgarfirði og af kirkjustaðnum Leirá. Þá er mynd tekin úr Engey til Reykjavíkur og önnur úr Súgandisey að Stykkishólmi með hólmann Stykkið í forgrunni.
Í albúminu eru 68 ljósmyndir og tók Sigfús langflestar sjálfur. Á öftustu opnunum eru nokkur minni prent mynda sem voru nær allar teknar af tveimur nemum hans og aðstoðarmönnum. Daníel Daníelsson (1866-1937) mágur Sigfúsar ljósmyndaði meðal annars illa farna sveitarbæi eftir Suðurlandsskjálftana 1896 og af sjö myndum eftir hann sem eru í albúminu eru fimm úr þeirri myndaröð. Friðrik Gíslason (1870-1906) var frá Vestmannaeyjum og ellefu myndir, flestar úr Eyjum, eru eftir hann í albúminu. Myndir þessara starfsmanna Sigfúsar eru flestar minni en ljósmyndir hans – allt eru þetta snertiprent, jafn stórar glerplötufilmunni sem notuð var.
Albúmið Lpr. 1152 var einskonar undirstaða ferðalagsins í fótspor ljósmyndarans Sigfúsar sem tekið er saman í þessu verki.
Ljósmyndir úr safneign og sérhannaðar fallegar vörur sem tengjast sýningarhaldi
