arfleifð og saga íslands

Þjóð verður til

Ferðalag um 1200 ára menningarsögu Íslendinga frá landnámi til samtímans.

Hvar
Þjóðminjasafnið - Suðurgötu
Grunnsýning þjóðminjasafnsins

Þjóð verður til: Menning og samfélag í 1200 ár.
Ferðalag um menningarsögu Íslendinga frá landnámi til samtímans.

Wesley C – Tucson, Arizona
Tilkomumikið safn - naut hverrar mínútu

„Tilkomumikið safn íslenskra gripa frá árinu 1000 og til dagsins í dag, settir fram í tímaröð. […] Ég var meira en 2 tíma á safninu – naut hverrar mínútu. Meðal þess sem mér fannst mest gaman að sjá var lítil stytta af Thor, fyrsta íslenska biblían (1584), húsgögn og klæði.“

Miles Archer – Boca Raton, Florida
Skylduheimsókn

„Það er mjög margt að sjá á þessu safni. Gerið ráð fyrir þremur klukkutímum. Ég fór ekki í leiðsögn heldur fór á mínum hraða um sýninguna og varð margs vísari. Skylduheimsókn fyrir alla sem hafa áhuga á menningu og sögu.“

Chicago mr b – Indianapolis
Ég mæli með safninu fyrir ferðamenn jafnt sem heimamenn

„Alveg æðislegt. Ef þið eruð í Reykjavík (og eruð sögunördar) skulið þið setja safnið á lista yfir það sem þið ætlið alls ekki að missa af. Merkileg saga, gripir og upplýsingar. Ég mæli með safninu fyrir ferðamenn jafnt sem heimamenn.“

Diane k – Portland, Oregon
Svo ótrúlega margt að sjá

„Einstaklega aðgengilegt safn með gripum frá upphafi Íslandsbyggðar til dagsins í dag. Ég hefði viljað hafa meiri tíma. Gefið ykkur góðan tíma til að skoða safnið, svo ótrúlega margt að sjá.“

Judy H
Algjörlega heimsóknarinnar virði

„Algjörlega heimsóknarinnar virði. Mjög áhugaverð saga. Frábært upphaf á ferðalagi okkar um Ísland.“

Jakyasar – New York City
Þetta safn er málið ef þú hefur áhuga á sögu

„Ef þið hafið áhuga á sögu og viljið vita meira um Ísland, þá er þetta safn málið. Ég mæli með að minnsta kosti tveimur tímum.“

800
1000

Upphaf Íslandsbyggðar

Ísland var óbyggt allt fram á víkingaöld. Þá tókst Norðurlandabúum að smíða skip sem siglt gátu yfir opið hafið á vit ókunnra slóða og nýrra landafunda. Talið er að fyrstu landnemarnir hafi komið til Íslands um 870, frá Noregi og norrænum víkingabyggðum á Bretlandi.

Margt hefur verið landnámsfólki framandi, lágvaxnir birkiskógar, gjósandi hverir og virk eldfjöll uppi á hálendinu, langir vetur og sumur kaldari en fólk átti að venjast. Engu að síður settist fólkið að, festi sér land og hóf nýtt líf í konungslausu ríki.

Fyrstu aldirnar var Ísland sjálfstætt ríki, laut engu konungsvaldi. En eftir aðeins fáeina áratugi komst fastmótuð þjóðfélagsskipan á í landinu. Goðar, hinir heiðnu höfðingjar, réðu ríkjum. Þeir stofnuðu Alþingi á Þingvöllum árið 930, eitt þing fyrir landið allt.  

Fólk lifði að mestu leyti á landbúnaði, kvikfjárrækt en einnig kornrækt. Landnemarnir fluttu með búfénað; nautgripi, sauðfé, geitur, svín, hross, hænsn og gæsir en einnig korn til að sá og veiðarfæri til veiða í ám, vötnum og sjó. Þá er líklegt að fólk hafi haft með sér verkfæri og áhöld en fljótlega var farið að smíða áhöld úr mýrarrauða, sem vinna má úr íslenskum jarðvegi.

Flestir sem hér settust að voru heiðnir. Hingað kom þó einnig kristið fólk og bjó að því er virðist í sátt og samlyndi við þá heiðnu.

Um aldamótin 1000 tóku Íslendingar kristni.

Gripir frá tímabilinu

Gripir frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafa fundist í jörðu á síðustu 200 árum, ýmist við skipulegar fornleifarannsóknir eða sem lausafundir. Lausafundur kallast það þegar gripur finnst á yfirborði jarðar og aðstæður leyfa ekki frekari rannsóknir. Þessir gripir eru tímasettir út frá því við hvers konar aðstæður þeir fundust. Einnig má nýta „gerðþróunarfræði“, þar sem gerð þeirra og e.t.v. mynstur eru notuð til aldursgreiningar.

Flestir þessara gripa eru úr ólífrænu efni eins og málmi, en hér á landi er mun fátíðara að gripir úr lífrænu efni, svo sem viði og beini, hafi varðveist. Algengustu gripirnir eru skart og vopn auk ýmiss konar járngripa. Sáralítið af fatnaði hefur varðveist frá landnámsöld. Hið eina sem vitnar um klæðaburð fólks eru skartgripir, eins og nælur og hringprjónar.

Eftir því sem fornleyfarannsóknum fleygir fram fæst sífellt meiri vitneskja um líf og störf fólks á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Hún birtist í niðurstöðum rannsókna á gróðurfari, beinaleifum, jarðlögum og fleiri þáttum sem skráðir eru og rannsakaðir við fornleifagröft.

Lesa meira

Gripir 800 - 1000

Þórslíkneski
Lykilgripur

Þórslíkneski

Ártal

1000

FUNDARSTAÐUR

Eyrarland, Eyjafjarðarsýslu

sTÆRÐ

6,7 cm

eFNI

Málmsteypa

Fleiri gripir
Grýta
Lykilgripur

Grýta

Ártal

900 - 1000

FUNDARSTAÐUR

Snæhvammur, Breiðdal, S-Múlasýslu

sTÆRÐ

9,5 x 34 x 21,5 cm

eFNI

Kléberg

Fleiri gripir
Hringprjónn
Lykilgripur

Hringprjónn

Ártal

900 - 1000

FUNDARSTAÐUR

Hólar, Biskupstungum

sTÆRÐ

6,6 x 1 cm

eFNI

Brons

Fleiri gripir
Nálhús
Lykilgripur

Nálhús

Ártal

900 - 1200

FUNDARSTAÐUR

Ekki vitað

sTÆRÐ

5,7 x 0,6 cm

eFNI

Brons

Fleiri gripir
1000
1200

Kristið goðaveldi

Um aldamótin 1000 tóku Íslendingar kristni og tileinkuðu sér kristna miðaldamenningu. Íslendingar lærðu að skrifa latneskt letur og skráðu lög sín og sögur á skinn á móðurmáli sínu, norrænu. Kristin klaustur voru menningarmiðstöðvar miðalda en veraldleg völd héldustáfram í höndum goða hins heiðna samfélags.

Tveir biskupsstólar voru í landinu, stofnaðir voru skólar og klaustur. Landinu var skipt í kirkjusóknir og skatturinn tíund innleiddur. Goðar voru nokkurs konar héraðshöfðingjar í stjórnkerfi sem ýmist er kallað goðaveldi eða þjóðveldi. Umdæmi þeirra, goðorðin, tóku brátt að safnast á hendur fárra höfðingjaætta.

Landsmenn bjuggu í sveitum og lifðu einkum á að rækta sauðfé og nautgripi. Kornyrkja var lítil en fiskveiðar umtalsverð aukabúgrein. Samgöngur og flutningar fóru fram á hestum og bátum og helsta útflutningsvaran var vaðmál.

Gripir frá tímabilinu

Varðveittir gripir 11. og 12. öld eru í eðli sínu ekki ólíkir því sem þekkist frá öldunum á undan. Jarðfundnir gripir úr ólífrænum efnum finnast við fornleifarannsóknir en einnig sem lausafundir, þ.e. ofan jarðar.

Meðal merkilegustu gripa frá tímabilinu eru útskornir húsaviðir sem flestir hafa fundist í árefti (langbönd eða lurkar milli rafta og þekju) torfhúsa á 20. öld, t.d. norðlenskar viðarþiljur. Það er því fastheldni í íslenskri húsagerð og timburskorti að þakka að varðveist hafa útskurðir úr íslenskri kirkju frá 12. öld sem ekki eiga sér sína líka í heiminum.

Elstu íslensku kirkjugripirnir eru frá 12. öld og varðveittust innan kirkjunnar allt þar til þeir komu til Þjóðminjasafns Íslands fyrir atbeina frumkvöðlanna í söfnun gripa. Gripir sem vitna um daglegt líf eru sárafáir en vitna sumir um listfengi forfeðra okkar.

Lesa meira

Gripir 1000 – 1200

Ufsakristur
Lykilgripur

Ufsakristur

Ártal

1100 – 1200

FUNDARSTAÐUR

Ufsir, Ufsaströnd, Eyjafjarðarsveit

sTÆRÐ

107 x 80 cm

eFNI

Viður

Fleiri gripir
Járnrós, hurðarhringur
Lykilgripur

Járnrós, hurðarhringur

Ártal

1100 – 1200

FUNDARSTAÐUR

Laufás, Grýtubakkahreppi, Suður Þingeyjarsýslu

sTÆRÐ

29 x 29 cm

eFNI

Járn, kopar

Fleiri gripir
Bagall
Lykilgripur

Bagall

Ártal

1200

FUNDARSTAÐUR

Skálholt, Biskupstungu, Árnessýsla

sTÆRÐ

ca 6,5 x 13 cm

eFNI

Rostungstönn

Fleiri gripir
Snældusnúður
Lykilgripur

Snældusnúður

Ártal

1190 – 1400

FUNDARSTAÐUR

Hruni, Hrunamannahreppi, Árnessýslu

sTÆRÐ

5,4 x 1,4 cm

eFNI

Steinn

Fleiri gripir
1200
1400

Í norska kongungsríkinu

13. öldin var öld ófriðar og átaka sem lauk ekki fyrr en Íslendingar urðu þegnar Noregskonungs. Á þessum tímum hófst líka sagnaritun á móðurmálinu og eru þar á meðal verk sem teljast meðal sígildra heimsbókmennta.

Valdamiklar ættir börðust um yfirráðin í landinu. Sturlungar fóru fremstir í flokki og er tímabilið gjarnan kennt við þá, Sturlungaöld. Bardagar voru háðir með sverðum, spjótum, öxum og grjótkasti. Noregskonungur vildi stækka ríki sitt og með Gamla sáttmála 1262 gerðust Íslendingar þegnar hans. Þá lauk þjóðveldi og ófriðinum létti. Íslendingar fengu ný lög og nýtt stjórnkerfi.

Ritmenning blómstraði á þessum öldum. Evrópuþjóðir skrifuðu einkum á latínu en Íslendingar skrifuðu langmest á móðurmáli sínu, norrænu. Á 12. öld ritaði Ari fróði fyrsta sagnaritið, Íslendingabók og um 1200 var farið að skrifa Íslendingasögur sem flestar gerast á árunum 930-1030. Ýmislegt fleira var ritað á skinn, svo sem lög og þýðingar á trúarlegum textum.

Fiskveiðar jukust mikið á 14. öld og hertur fiskur var helsta útflutningsvara landsmanna í stað vaðmáls áður. Fiskveiðar voru þó áfram að mestu aukabúgrein bænda.

Gripir frá tímabilinu

Varðveittir gripir hafa í mörgum tilfellum legið í jörðu öldum saman. Sverð og spjót hafa fundist hér og þar um landið og vitna um ófrið Sturlungaaldar.

Minjar um atvinnuhætti eru fátíðar þótt einstaka steðji til járnsmíða og önglar til fiskveiða hafi fundist. Einstaka klæðisplögg og vaðmálspjötlur hafa komið upp við fornleifarannsóknir.

Kirkjan leggur okkur mest til af gripum. Veldi hennar birtist í helgigripum sem ýmist voru keyptir frá útlöndum eða búnir til hér á landi. Húsaviðir voru skornir út hér á landi, kaleikar drifnir úr silfri og klæði og reflar saumuð út.

Lesa meira

Gripir 1200 - 1400

Valþjófsstaðahurðin
Lykilgripur

Valþjófsstaðahurðin

Ártal

1175 - 1200

FUNDARSTAÐUR

Valþjófsstaður, Fljótdalshreppur

sTÆRÐ

206,5 x 97,5 cm

eFNI

Fura

Fleiri gripir
Naglbítur
Lykilgripur

Naglbítur

Ártal

1100 - 1400

FUNDARSTAÐUR

Saurar, Helgafellssveit

sTÆRÐ

48 cm

eFNI

Járn

Fleiri gripir
Saumnál
Lykilgripur

Saumnál

Ártal

Óvíst

FUNDARSTAÐUR

Ysta-Reyðarvatn, Rangárþingi ytra

sTÆRÐ

6 cm

eFNI

Kopar

Fleiri gripir
Róðukross
Lykilgripur

Róðukross

Ártal

1325 - 1375

FUNDARSTAÐUR

Álftamýri, Arnarfirði

sTÆRÐ

44 x 7,7 x 3,3 cm

eFNI

Rekaviður

Fleiri gripir
1400
1600

Í Danaveldi

Undir lok 14. aldar hvarf norska krúnan undir Danakonung og þar með Ísland. Íslendingar voru þegnar hins danska konungs allt til ársins 1944 þegar lýðveldið var stofnað.

Svartidauði barst til landsins í upphafi 15. aldar og felldi um helming landsmanna. Undir lokar aldarinnar gekk önnur bráðdrepandi pest yfir landið en felldi þó heldur færri en svartidauði. Heilu sveitirnar lögðust í eyði í plágunum. Þessar hörmungar ollu nokkurri stöðnun í íslensku þjóðlífi, ekki síst í listum. Kirkjan eignaðist nær helming jarðeigna í landinu þegar plágurnar gengu yfir.

Á fyrri hluta 16. aldar fyrirskipaði Danakonungur lútherskan sið um allt ríki sitt. Jón Arason biskup á Hólum hlýddi ekki skipun konungs og var fyrir þær sakir hálshöggvinn í Skálholti þann 7. nóvember 1550. Hann var þá síðasti kaþólski biskupinn á Norðurlöndum. Aftaka hans markar lok miðalda.

Eftir síðaskiptin jókst vald konungs og hann eignaðist klausturjarðirnar. Biskupsstólarnir voru þó áfram reknir sem sjálfseignarstofnanir og urðu miðstöðvar íslenskrar menningarstarfsemi. Þeir stóðu fyrir skólahaldi, bókaútgáfu og sagnaritun.

Snemma á 15. öld hófu Englendingar að stunda fiskveiðar af miklum móð á Íslandsmiðum og versla við heimamenn og er öldin stundum kölluð enska öldin. Síðar á sömu öld léku Þjóðverjar sama leik og börðust stundum við Englendinga um yfirráð yfir verslunarhöfnum. Þeir fluttu hingað ýmsan varning sem fæstir landsmenn höfðu áður augum litið.

Gripir frá tímabilinu

Varðveittir gripir frá tímabilinu tengjast gjarna nafnkunnum mönnum sem á þessum tíma máttu sín mikils og fóru jafnframt víða um lönd. Gripir kenndir við einstaka menn setja svip sinn á safnkostinn. Það á t.d. við um Guðbrand biskup Þorláksson á Hólum.

Minna hefur fundist af minjum um líf alþýðufólks. Þó hafa hversdagsgripir verið grafnir úr rústum sem fólust undir jarðveg í eldgosum. Þeir veita skýra mynd af lífi fólksins á þessum tíma. Fátítt er að fatnaður finnist en þó eitthvað af tignarklæðum presta og biskupa. Vafalítið geymir jörðin enn margvíslegan vitnisburð um lífshætti þjóðarinnar á 15. og 16. öld.

Lesa meira

Gripir 1400 - 1600

Guðbrandsbiblía
Lykilgripur

Guðbrandsbiblía

Ártal

1584

FUNDARSTAÐUR

Hólar í Hjaltadal - Háls, Fnjóskahreppur, S-Þingeyjarsýslu

sTÆRÐ

39 x 27 x 11 cm

eFNI

Pappír, skinn

Fleiri gripir
Ólafur helgi
Lykilgripur

Ólafur helgi

Ártal

1500 – 1600

FUNDARSTAÐUR

Ísland

sTÆRÐ

67 cm

eFNI

Eik

Fleiri gripir
Blekbytta
Lykilgripur

Blekbytta

Ártal

1525 – 1575

FUNDARSTAÐUR

Hólar í Hjaltadal

sTÆRÐ

4 x 4,5 cm

eFNI

Bein

Fleiri gripir
María, líkneski
Lykilgripur

María, líkneski

Ártal

1450 - 1550

FUNDARSTAÐUR

Eyri, Skutulsfirði

sTÆRÐ

97,3 cm

eFNI

Viður

Fleiri gripir
1600
1800

Konungseinveldi

Í Evrópu var tímabilið mikið umbreytingarskeið. Straumar upplýsingarinnar og iðnbyltingarinnar bárust vissulega til Íslands en höfðu ekki þau gríðarlegu áhrif á framfarir og fólksfjölgun hér líkt og annars staðar í álfunni.

Fyrsta varðveitta manntal í heiminum þar sem heil þjóð er skráð með nöfnum er manntal sem ráðist var í á Íslandi að undirlagi konungs árið 1703. Íslendingar reyndust vera 50.358. Þar af höfðu einungis 800 starfstitil sem bennti til annars starfa en búskapar eða vinnumennsku, sem er minna en 1% fullorðinna íbúa. Fjömennastir voru prestar, 245, og þjónustustúlkur voru 142. Manntalið sýnir þversnið af einhæfu samfélagi við upphaf iðnbyltingarinnar í Evrópu.

Konungsvaldið og framfarasinnaðir Íslendingar reyndu að stuðla að nýjungum í atvinnulífi. Menntamenn sóttu háskólanám til Kaupmannahafnar, reynt var að kenna Íslendingum að rækta korn, gerðar tilraunir með ullariðnað í verkstæðum og skipuleg lestrarkennsla hófst á 18. öld. Í Reykjavík varð til vísir að þéttbýli og fyrstu steinhúsin byggð. En allt kom fyrir ekki og lifnaðarhættir héldust að mestu í sama horfinu alla öldina og í lok hennar hafði íbúum fækkað.

Skaftáreldar hófust árið 1783. Þeim fylgdu kuldar og móðuharðindi sem létti ekki fyrr en árið 1785. Fólk hraktist af jörðum sínum, búfénaður stráféll og hungursneyð ríkti. Áður en yfir lauk hafði um fimmtungur þjóðarinnar fallið.

Vald konungs jókst hér á landi eftir siðaskiptin. Konungur sett á danska verslunareinokun á Ísland árið 1602 og stóð hún til ársloka 1787.

Gripir frá tímabilinu

Þegar kemur fram yfir siðaskipti fjölgar varðveittum gripum til muna. Útskornir trémunir setja svip sinn á safnkostinn, kistlar, skápar og trafakefli svo dæmi séu nefnd og einnig kvenskart og silfurgripir heldra fólks. Sammerkt er þessum gripum að þeir hafa varðveist manna á meðal þar til safnmenn hafa sóst eftir þeim eða eigendum þótt svo mikið til þeirra koma að þeir hafa gefið þá safninu.

Listsköpun og alþýðumenning verður sýnilegri, þótt vitaskuld séu varðveittir gripir fremur úr fórum þeirra sem meira máttu sín. Varðveisla fatnaðar er glöggt dæmi þar um, í safninu er fatnaður heldri kvenna en hversdagsfatnað vantar með öllu og karlmannaföt eru varla til.

Lesa meira

Gripir 1600 - 1800

Drykkjarhorn lögréttumanns
Lykilgripur

Drykkjarhorn lögréttumanns

Ártal

1598

FUNDARSTAÐUR

Ísland

sTÆRÐ

ca 60 cm

eFNI

Nautshorn

Fleiri gripir
Staup
Lykilgripur

Staup

Ártal

1500 – 1600

FUNDARSTAÐUR

Ísland

sTÆRÐ

5,6 x 5,9 cm

eFNI

Bein

Fleiri gripir
Íslandskort
Lykilgripur

Íslandskort

Ártal

1732

FUNDARSTAÐUR

Reykjavík

sTÆRÐ

135,5 x 125,5

eFNI

Pappír

Fleiri gripir
Vídalínspostilla
Lykilgripur

Vídalínspostilla

Ártal

1724

FUNDARSTAÐUR

Hóladómkirkja

sTÆRÐ

15 x 20,5 cm

eFNI

Skinn, pappír, látún

Fleiri gripir
1800
1900

Þjóðin og þéttbýlið

Þjóðernisstefnu óx fiskur um hrygg á fyrri hluta 19. aldar líkt og annars staðar í Evrópu og Íslendinga dreymdi um að verða sjálfstæð þjóð.

Alþingi (sem lagt hafði verið niður árið 1800, enda nær valdalaust) var endurreist í Reykjavík árið 1845. Alþingi fékk löggjafarvald með konungi – en raunin var sú Íslendingar höfðu takmarkaða sjálfsstjórn. Kosningarétt hafði um helmingur uppkominna karlmanna.

Árið 1874 fengu Íslendingar svo sína fyrstu stjórnarskrá. Mikil hátíð var á Þingvöllum við þetta tilefni og Danakonungur heimsótti Ísland í fyrsta sinn til að vera viðstaddur hátíðina.

Sjálfstæðisbaráttan varð til þess að einokunarverslun var aflétt og verslun við Ísland var frjáls öllum þjóðum 1855 og var það mikið framfaraskref fyrir Íslendinga í mörgum skilningi. Þéttbýlismyndun hófst og innlend kaupmannastétt varð til.

Íslendingar hófu veiðar á þilskipum, skútum, sem gerðu mönnum mögulegt að hafa fiskveiðar að aðalatvinnu. Í fyrstu voru þilskipin einkum notuð til að veiða hákarl, en hákarlalýsi var eftirsótt í evrópskum borgum og notað til götulýsingar. Selveiðar fóru einnig vaxandi og selskinn flutt út. Á skútum mátti sækja lengra og afla meira en á árabátum. Legið var úti vikum saman og fiskurinn saltaður um borð. Stærsti hluti aflans var þó enn sóttur á opnum árabátum.

Fátækt var mikil og útbreidd. Á fyrri helmingi aldarinnar fjölgaði Íslendingum um 40% og fólksfjölgunin gerði fólki erfitt fyrir. Hlutfallslega margt fólk var á giftingar- og barneignaaldri, erfitt var að fá jarðnæði og litla vinnu að fá í sjávarþorpum, auk þess sem öreigagiftingar voru bannaðar. Fátæku fólki var því gert nær ómögulegt að stofna fjölskyldu og búa sér gott líf. Hvergi í Evrópu var hlutfall vinnuhjúa hærra en á Íslandi og lausaleiksbörn voru mörg.

Á síðari hluta aldarinnar reið eitt mesta kuldaskeið Íslandssögunnar yfir og ekki batnaði ástandið þegar Askja gaus árið 1875. Öskjugosið er talið eitt mesta öskugos á Íslandi. Á aðeins nokkrum klukkutímum varð svo gífurlegt vikur- og öskufall að jarðir fóru í eyði á Austurlandi og mikil harðindi fylgdu í kjölfarið. Náttúruhamfarir þessar juku á bágindi fátæks fólks og ollu landflótta til Vesturheims, aðallega Manitoba í Kanada og nyrstu fylkja Bandaríkjanna.

Gripir frá tímabilinu

Árið 1863 var Forngripasafnið, sem síðar varð Þjóðminjasafn Íslands, stofnað. Í fyrstu var lögð áhersla á að safna jarðfundnum forngripum, kirkjugripum og öðrum listgripum frá fyrri öldum og merkum fornum gripum forðað frá glötun. Það var ekki fyrr en síðar að farið var að safna hversdagslegum gripum sem gefa mynd af lífi alþýðufólks.

Mynd okkar af Íslendingnum skýrist verulega á 19. öldinni. Atvinnutól og tæki hafa varðveist og ljósmyndatæknin varð til sem gerir okkur kleift að skoða fortíð okkar og túlka hana. Útskornir gripir setja enn mark sitt á safnkostinn, einnig útsaumur og vefnaður. Tækjum og tólum fjölgar til muna.

Lesa meira

Gripir 1800 - 1900

Skautbúningur Sigurlaugar í Ási
Lykilgripur

Skautbúningur Sigurlaugar í Ási

Ártal

1860

FUNDARSTAÐUR

Steinnes, Sveinsstaðahreppi, A-Húnavatnssýslu

sTÆRÐ

eFNI

Bómull, klæði, sirs, ull

Fleiri gripir
Selskinnsskór
Lykilgripur

Selskinnsskór

Ártal

1880 – 1900

FUNDARSTAÐUR

Teigur, Hvammssveit, Dalabyggð

sTÆRÐ

30 x 10,5 cm

eFNI

Selskinn, ull

Fleiri gripir
Víkingaskip eftir Sigurð Guðmundsson
Lykilgripur

Víkingaskip eftir Sigurð Guðmundsson

Ártal

1800 – 1900

FUNDARSTAÐUR

Reykjavík

sTÆRÐ

22,2 x 33,3 cm

eFNI

Pappír

Fleiri gripir
Vettlingar
Lykilgripur

Vettlingar

Ártal

1866

FUNDARSTAÐUR

Ísland

sTÆRÐ

23 x 10,3 cm

eFNI

Ull

Fleiri gripir
Ljósmyndasafn

Ljósmyndir úr safneign.
Skoðaðu úrvalið í vefverslun.

Secondary text to use when needed

Sigridur_Zoega_Konur_vid_vatn-
Fylgstu með

Skráðu þig á póstlista Þjóðminjasafnsins.

Þegar þú skráir þig á póstlista Þjóðminjasafnsins færðu boð á sýningaropnanir, fréttir af viðburðum og sýningum og tilboð í Safnbúð.

Takk!  Staðfestu skráninguna með því að smella á linkinn sem við vorum að senda þér.
Eitthvað fór úrskeiðis. Reyndu aftur.