Þjóð
verður til
Ferðalag um 1200 ára menningarsögu Íslendinga frá landnámi til samtímans.

Þjóð verður til: Menning og samfélag í 1200 ár.
Ferðalag um menningarsögu Íslendinga frá landnámi til samtímans.
„Tilkomumikið safn íslenskra gripa frá árinu 1000 og til dagsins í dag, settir fram í tímaröð. […] Ég var meira en 2 tíma á safninu – naut hverrar mínútu. Meðal þess sem mér fannst mest gaman að sjá var lítil stytta af Thor, fyrsta íslenska biblían (1584), húsgögn og klæði.“
„Það er mjög margt að sjá á þessu safni. Gerið ráð fyrir þremur klukkutímum. Ég fór ekki í leiðsögn heldur fór á mínum hraða um sýninguna og varð margs vísari. Skylduheimsókn fyrir alla sem hafa áhuga á menningu og sögu.“
„Alveg æðislegt. Ef þið eruð í Reykjavík (og eruð sögunördar) skulið þið setja safnið á lista yfir það sem þið ætlið alls ekki að missa af. Merkileg saga, gripir og upplýsingar. Ég mæli með safninu fyrir ferðamenn jafnt sem heimamenn.“
„Einstaklega aðgengilegt safn með gripum frá upphafi Íslandsbyggðar til dagsins í dag. Ég hefði viljað hafa meiri tíma. Gefið ykkur góðan tíma til að skoða safnið, svo ótrúlega margt að sjá.“
„Algjörlega heimsóknarinnar virði. Mjög áhugaverð saga. Frábært upphaf á ferðalagi okkar um Ísland.“
„Ef þið hafið áhuga á sögu og viljið vita meira um Ísland, þá er þetta safn málið. Ég mæli með að minnsta kosti tveimur tímum.“
Upphaf Íslandsbyggðar
Ísland var óbyggt allt fram á víkingaöld. Þá tókst Norðurlandabúum að smíða skip sem siglt gátu yfir opið hafið á vit ókunnra slóða og nýrra landafunda. Talið er að fyrstu landnemarnir hafi komið til Íslands um 870, frá Noregi og norrænum víkingabyggðum á Bretlandi.
Margt hefur verið landnámsfólki framandi, lágvaxnir birkiskógar, gjósandi hverir og virk eldfjöll uppi á hálendinu, langir vetur og sumur kaldari en fólk átti að venjast. Engu að síður settist fólkið að, festi sér land og hóf nýtt líf í konungslausu ríki.
Fyrstu aldirnar var Ísland sjálfstætt ríki, laut engu konungsvaldi. En eftir aðeins fáeina áratugi komst fastmótuð þjóðfélagsskipan á í landinu. Goðar, hinir heiðnu höfðingjar, réðu ríkjum. Þeir stofnuðu Alþingi á Þingvöllum árið 930, eitt þing fyrir landið allt.
Fólk lifði að mestu leyti á landbúnaði, kvikfjárrækt en einnig kornrækt. Landnemarnir fluttu með búfénað; nautgripi, sauðfé, geitur, svín, hross, hænsn og gæsir en einnig korn til að sá og veiðarfæri til veiða í ám, vötnum og sjó. Þá er líklegt að fólk hafi haft með sér verkfæri og áhöld en fljótlega var farið að smíða áhöld úr mýrarrauða, sem vinna má úr íslenskum jarðvegi.
Flestir sem hér settust að voru heiðnir. Hingað kom þó einnig kristið fólk og bjó að því er virðist í sátt og samlyndi við þá heiðnu.
Um aldamótin 1000 tóku Íslendingar kristni.
Gripir frá tímabilinu
Gripir frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafa fundist í jörðu á síðustu 200 árum, ýmist við skipulegar fornleifarannsóknir eða sem lausafundir. Lausafundur kallast það þegar gripur finnst á yfirborði jarðar og aðstæður leyfa ekki frekari rannsóknir. Þessir gripir eru tímasettir út frá því við hvers konar aðstæður þeir fundust. Einnig má nýta „gerðþróunarfræði“, þar sem gerð þeirra og e.t.v. mynstur eru notuð til aldursgreiningar.
Flestir þessara gripa eru úr ólífrænu efni eins og málmi, en hér á landi er mun fátíðara að gripir úr lífrænu efni, svo sem viði og beini, hafi varðveist. Algengustu gripirnir eru skart og vopn auk ýmiss konar járngripa. Sáralítið af fatnaði hefur varðveist frá landnámsöld. Hið eina sem vitnar um klæðaburð fólks eru skartgripir, eins og nælur og hringprjónar.
Eftir því sem fornleyfarannsóknum fleygir fram fæst sífellt meiri vitneskja um líf og störf fólks á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Hún birtist í niðurstöðum rannsókna á gróðurfari, beinaleifum, jarðlögum og fleiri þáttum sem skráðir eru og rannsakaðir við fornleifagröft.
Gripir 800 - 1000


Þórslíkneski
1000
Eyrarland, Eyjafjarðarsýslu
6,7 cm
Málmsteypa
Þrumuguðinn Þór heldur báðum höndum um hamar sinn,Mjölni.
Þórslíkneskið er lykilgripur tímabilsins 800-1000 og er meðal þekktustu gripa í Þjóðminjasafni Íslands og fjöldi gesta kemur um langan veg til að berja það augum.
Þór var einn mesti guðinn í norrænum sið og líklega þekkir hvert mannsbarn á Íslandi Þór og hamar hans. Hans er getið í elstu bókmenntum Íslendinga, Snorra Eddu sem rituð er á 13. öld og Eddukvæðum sem ort voru töluvert fyrr. Í dag er Þór efniviður skálda og annarra listamanna um víða veröld. Hann leikur stórt hlutverk í afþreyingarmenningu samtímans sem spinnur um hann og afrek hans miklar og ævintýralegar sögur. Hversu líkur Þór er hinu norræna goði skal ekki fullyrt um.
Kannski er það vegna þess hve frægðarsól Þórs hefur skinið víða og lengi eða vegna þess að líkamlegt afl er hans helsti styrkur að mörgum gestum kemur á óvart hve smátt þetta fræga líkneski er í raun, aðeins 6,7 cm.
Aldrei er fjallað um Þór öðruvísi en svo að hamarinn komi við sögu. Það er athyglisvert að hamarinn sem Þór heldur hér um er eins og kross í laginu. Flest landnámsfólk lifði í heiðnum sið en allt frá upphafi Íslandsbyggðar bjó hér einnig kristið fólk. Sambúð heiðinna og kristinna virðist hafa verið friðsamleg.
Stíleinkenni líkneskisins benda til þess að það hafi verið gert nálægt aldamótunum 1000.
Líkneskið fannst árið 1815 eða 1816. Það var sent til Kaupmannahafnar árið 1817 en kom aftur til Íslands 1930 ásamt ýmsum öðrum forngripum úr Þjóðminjasafni Dana.
Munur: Þjms. 10880/1930-287


Brjóstnæla fyrir serk
900 - 1000
Hrísar, Dalvíkurhreppi
11,5 x 7,8 x 4 cm
Brons
Brjóstnæla frá 10. öld. Nælan er með gyllingu sem er nær óskemmd. Nælur sem þessar voru hafðar framan á öxlunum til að halda uppi serknum sem konur klæddust. Nælan fannst í fornri gröf.
Munur: Þjms. 7346/1916-329


Hnefi, úr tafli
900 - 1000
Baldursheimur, Mývatnssveit
4 x 2,4 cm
Hvalbein
Hnefi úr hnefatafli sem fannst í kumli á Baldursheimi árið 1860. Hneftafl er forn útgáfa af taflleik en því miður er ekki vitað hvernig leikurinn gekk fyrir sig. Þó er nokkuð víst að liðin sóttu og vörðu á víxl aðal taflmaðurinn, „hnefann“, líkt og kóng í nútíma tafli. Gripurinn sem hér sést er vafalaust „hnefinn“. Hann fannst í heilu hnefatafli.
Líkanið er skorið í hvalbein, taflmaður í mannsmynd sem virðist sitja á hækjum sér á stalli og heldur báðum höndum um langt, klofið hökuskegg. Hann hefur eins konar hettu á höfði.
Í Baldursheimskumlinu fundust ýmsir gripir auk taflsins, svo sem járnmél, spjót, leifar af axarblaði og sverð.
Munur: Þjms. 6/1863-7


Sverð frá Kaldárhöfða
900 - 1000
Kaldárhöfði, Grímsnesi
92 cm
Járn
Sverð frá lokum víkingaaldar. Það fannst í kumli fullorðins manns og ungs drengs hjá Kaldárhöfða í Grímsnesi. Þeir höfðu verið grafnir í báti og haugféð var veglegt. Hjöltin eru úr bronsi og skreytt með sporbaugum og leifar af innfelldu silfri sjást á þeim. Handfangið er vafið ullar- eða hörþræði.
Kuml kallast grafir úr heiðnum sið. Hinn látni fær þá með sér haugfé svo sem klæði, skartgripi, vopn, áhöld og jafnvel hest eða hund, til að taka með sér til næsta áfangastaðar. Stundum var fólk grafið í smábátum. Haugfé í íslenskum kumlum er sams konar og fundist hefur í Noregi sem bendir til að flestir landnámsmenn hafi komið þaðan. Gripir í íslenskum kumlum eru þó ekki jafn ríkulegir og í Noregi.
Munur: Þjms. 13535/1946-43-1
Kristið goðaveldi
Um aldamótin 1000 tóku Íslendingar kristni og tileinkuðu sér kristna miðaldamenningu. Íslendingar lærðu að skrifa latneskt letur og skráðu lög sín og sögur á skinn á móðurmáli sínu, norrænu. Kristin klaustur voru menningarmiðstöðvar miðalda en veraldleg völd héldustáfram í höndum goða hins heiðna samfélags.
Tveir biskupsstólar voru í landinu, stofnaðir voru skólar og klaustur. Landinu var skipt í kirkjusóknir og skatturinn tíund innleiddur. Goðar voru nokkurs konar héraðshöfðingjar í stjórnkerfi sem ýmist er kallað goðaveldi eða þjóðveldi. Umdæmi þeirra, goðorðin, tóku brátt að safnast á hendur fárra höfðingjaætta.
Landsmenn bjuggu í sveitum og lifðu einkum á að rækta sauðfé og nautgripi. Kornyrkja var lítil en fiskveiðar umtalsverð aukabúgrein. Samgöngur og flutningar fóru fram á hestum og bátum og helsta útflutningsvaran var vaðmál.
Gripir frá tímabilinu
Varðveittir gripir 11. og 12. öld eru í eðli sínu ekki ólíkir því sem þekkist frá öldunum á undan. Jarðfundnir gripir úr ólífrænum efnum finnast við fornleifarannsóknir en einnig sem lausafundir, þ.e. ofan jarðar.
Meðal merkilegustu gripa frá tímabilinu eru útskornir húsaviðir sem flestir hafa fundist í árefti (langbönd eða lurkar milli rafta og þekju) torfhúsa á 20. öld, t.d. norðlenskar viðarþiljur. Það er því fastheldni í íslenskri húsagerð og timburskorti að þakka að varðveist hafa útskurðir úr íslenskri kirkju frá 12. öld sem ekki eiga sér sína líka í heiminum.
Elstu íslensku kirkjugripirnir eru frá 12. öld og varðveittust innan kirkjunnar allt þar til þeir komu til Þjóðminjasafns Íslands fyrir atbeina frumkvöðlanna í söfnun gripa. Gripir sem vitna um daglegt líf eru sárafáir en vitna sumir um listfengi forfeðra okkar.
Gripir 1000 – 1200


Ufsakristur
1100 – 1200
Ufsir, Ufsaströnd, Eyjafjarðarsveit
107 x 80 cm
Viður
Ufsakristur er róða, Kristslíkneski af krossi, en krossinn hefur glatast. Myndin er skorin úr birki í rómönskum stíl. Hún hefur verið máluð og sjást enn leifar af upphaflegri málningu. Krossinn hékk í Ufsakirkju í Svarfaðardal. Hanner talinn íslenskur og frá því um 1200.
Kristur er sýndur alskeggjaður og sítt hárið fellur niður umherðarnar. Hann hefur um sig lendaklæði eins og venja er á slíkum myndum ogstendur teinréttur á fótstalli með upprétt höfuð, opin augu og arma teygðabeint út frá öxlum, allt einkenni rómanska stílsins.
Rómanskir krossar tíðkuðust fram undir 1200. Á þeim er Kristur valdsmannslegur og oft krýndur kórónu konungs. Á gotnesku krossunum sem komu á eftir þeim rómönsku ber hann þyrnikórónu píslarvottsins, höfuðið hneigist niður og líkaminn hangir í dauðastellingum.
Krossar með Kristslíkneskjum, róðukrossar, voru í flestum kaþólskum kirkjum. Við siðbreytinguna voru margar dýrlingamyndir eyðilagðar en krossar í kirkjum fengu fremur að vera í friði. Ufsakristur er lykilgripur tímabilsins.
Skoða grip á Sarpi
Munur: Þjms. 4795/1901-15


Snældusnúður
1190 – 1400
Hruni, Hrunamannahreppi, Árnessýslu
5,4 x 1,4 cm
Steinn
Snældusnúður úr móleitum steini, kúptur að ofan en sléttur að neðan. Að neðanverðu hafa verið ristar rúnir ÞRAMJG: „Þóra á mig.“ Á fyrstu áratugum 13. aldar var Þóra Guðmundsdóttir, sem sagt er frá í Sturlungu, húsfreyja í Hruna, þó ekki sé hægt að fullyrða að snúðurinn hafi verið hennar eign.
Munur: Þjms. 1933/1881-69


Bagall af biskupsstaf
1050 – 1075
Þingvellir
8,7 x 5,1 cm
Kopar
Húnn af staf, að öllum líkindum biskupsstaf, bagli. Krókarnir á húninum enda í dýrshöfðum í Úrnesstíl og er því líklega frá 11. öld. Stafurinn gæti hafa tilheyrt einhverjum hinna fyrstu biskupa.
Munur: Þjms. 15776/1957-39


Steinasörvi
900 – 1000
Hólaskógur, Þjórsárdal, Gnúpverjahreppi
0,8 – 2,5 cm
Gler, raf
Í Þjórsárdal hafafundist bæði heiðnar grafir og kristnar. Vitað er með vissu um tvö kuml í dalnum þó líklega hafi þau verið fleiri. Perlurnar fundust í öðru þeirra. Hálsfesti sem þessi, úr litríkum gler-, stein- og rafperlum kallast steinasörvi.
Árið 1104 gaus Hekla og huldi byggðina í Þjórsárdal vikri, allt að 20 cm þykku lagi. Vel varðveittar mannvistarleifar þar varpa ljósi á daglegt líf á fyrstu öldum byggðar á Íslandi.
Lengi vel var talið að byggð hefði lagst af í dalnum í kjölfar eldgossins. Rústir að minnsta kosti tuttugu bæja eru í Þjórsárdal og minjastaðirnir eru enn fleiri.
Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós að byggð hélst að einhverju leyti í dalnum fram á 13. öld. Eftir að byggð lagðist af í Þjórsárdal var skógurinn áfram nytjaður og dalurinn nýttur til sumarbeitar. Um dalinn lá þjóðleið milli Norður- og Suðurlands fram á 17. öld.
Munur: Þjms. 1978-91-2
Í norska kongungsríkinu
13. öldin var öld ófriðar og átaka sem lauk ekki fyrr en Íslendingar urðu þegnar Noregskonungs. Á þessum tímum hófst líka sagnaritun á móðurmálinu og eru þar á meðal verk sem teljast meðal sígildra heimsbókmennta.
Valdamiklar ættir börðust um yfirráðin í landinu. Sturlungar fóru fremstir í flokki og er tímabilið gjarnan kennt við þá, Sturlungaöld. Bardagar voru háðir með sverðum, spjótum, öxum og grjótkasti. Noregskonungur vildi stækka ríki sitt og með Gamla sáttmála 1262 gerðust Íslendingar þegnar hans. Þá lauk þjóðveldi og ófriðinum létti. Íslendingar fengu ný lög og nýtt stjórnkerfi.
Ritmenning blómstraði á þessum öldum. Evrópuþjóðir skrifuðu einkum á latínu en Íslendingar skrifuðu langmest á móðurmáli sínu, norrænu. Á 12. öld ritaði Ari fróði fyrsta sagnaritið, Íslendingabók og um 1200 var farið að skrifa Íslendingasögur sem flestar gerast á árunum 930-1030. Ýmislegt fleira var ritað á skinn, svo sem lög og þýðingar á trúarlegum textum.
Fiskveiðar jukust mikið á 14. öld og hertur fiskur var helsta útflutningsvara landsmanna í stað vaðmáls áður. Fiskveiðar voru þó áfram að mestu aukabúgrein bænda.
Gripir frá tímabilinu
Varðveittir gripir hafa í mörgum tilfellum legið í jörðu öldum saman. Sverð og spjót hafa fundist hér og þar um landið og vitna um ófrið Sturlungaaldar.
Minjar um atvinnuhætti eru fátíðar þótt einstaka steðji til járnsmíða og önglar til fiskveiða hafi fundist. Einstaka klæðisplögg og vaðmálspjötlur hafa komið upp við fornleifarannsóknir.
Kirkjan leggur okkur mest til af gripum. Veldi hennar birtist í helgigripum sem ýmist voru keyptir frá útlöndum eða búnir til hér á landi. Húsaviðir voru skornir út hér á landi, kaleikar drifnir úr silfri og klæði og reflar saumuð út.
Gripir 1200 - 1400


Valþjófsstaðahurðin
1175 - 1200
Valþjófsstaður, Fljótdalshreppur
206,5 x 97,5 cm
Fura
Valþjófsstaðahurðin var í kirkjudyrum í Fljótsdal. Hurðin er með miklum útskurði í rómönskum stíl. Talið er að hún hafi upphaflega verið um þriðjungi hærri og hringirnir þá þrír.
Á hurðinni er silfursleginn járnhringur með innlögðu rósamunstri. Í efri hringnum er þekkt miðaldasaga í þremur þáttum. Neðst sést riddari á hesti sínum og flýgur veiðihaukur með. Riddarinn leggur sverði gegnum dreka sem vafið hefur halanum um ljón. Í næsta þætti, efst til vinstri, sést þakklátt ljónið fylgja lífgjafa sínum en veiðihaukurinn situr á makka hestsins. Í síðasta þætti, efst til hægri, liggur ljónið á gröf riddarans og syrgir hann. Í baksýn er lítil stafkirkja og á gröfinni er rúnaletur: „Sjá inn ríkja konung hér grafinn er vá dreka þenna.“ Í neðri hringnum eru fjórir drekar sem vefjast saman í hnút.
Íburður miðaldakirkna ber vitni um auðlegð og völd eigendanna og sýna jafnframt tengsl Íslendinga við nágrannaþjóðir sínar. Valþjófsstaðahurðin er eina útskorna hurðin sem hefur varðveist. Hún var fyrir kirkjum á Valþjófsstað allt til 1851 þegar hún var flutt til Kaupmannahafnar. Árið 1930 skiluðu Danir hurðinni til Íslands ásamt fjölda annarra ómetanlegra gripa.
Munur: Þjms. 11009/1930-425


Naglbítur
1100 - 1400
Saurar, Helgafellssveit
48 cm
Járn
Smíðatöng með naglbítslagi. Á öðrum arminum er eins konar klaufjárn. Fundin í fornum rauðablæstri, frá miðöldum. Innlent járn var unnið úr mýrarauða. Járngerð lagðist að mestu af á 15. öld en þá tók ódýrara járn, unnið úr málmgrýti, að flytjast til landsins.
Munur: Þjms. 4033/1894-76


Drykkjarhorn
1300 - 1500
Skálholt, Biskupstungum
Hrútshorn
Hornin eru kölluð minnishorn. Þau eru að öllum líkindum af sama hrútnum og búin til af sama smiðnum.
Munur: Þjms. 11007-a/1930-422


Bókfellsblað, sálmur
1200 - 1250
Ekki vitað
18,12 x 21,3 cm
Pergament
Bókfellsblað. Skrifað er á latínu beggja vegna með stórgerðu fallegu letri, upphafsstafir eru sums staðar rauðir, bláir og grænir, rómanskir. Á síðunni eru brot úr 79. Davíðssálmi.
Fyrir miðri síðu, það sem í fljótu bragði virðist vera hringur, er stórt og skrautlega dregið E, 7 cm í þvermál. Vargshausar eru á endum stafsins og inni í hringnum blómaskraut í rómönskum stíl. Hægra megin fyrir miðju er biblíumynd, engill og tvær konur.
Munur: Þjms. 1799/1880-31
Í Danaveldi
Undir lok 14. aldar hvarf norska krúnan undir Danakonung og þar með Ísland. Íslendingar voru þegnar hins danska konungs allt til ársins 1944 þegar lýðveldið var stofnað.
Svartidauði barst til landsins í upphafi 15. aldar og felldi um helming landsmanna. Undir lokar aldarinnar gekk önnur bráðdrepandi pest yfir landið en felldi þó heldur færri en svartidauði. Heilu sveitirnar lögðust í eyði í plágunum. Þessar hörmungar ollu nokkurri stöðnun í íslensku þjóðlífi, ekki síst í listum. Kirkjan eignaðist nær helming jarðeigna í landinu þegar plágurnar gengu yfir.
Á fyrri hluta 16. aldar fyrirskipaði Danakonungur lútherskan sið um allt ríki sitt. Jón Arason biskup á Hólum hlýddi ekki skipun konungs og var fyrir þær sakir hálshöggvinn í Skálholti þann 7. nóvember 1550. Hann var þá síðasti kaþólski biskupinn á Norðurlöndum. Aftaka hans markar lok miðalda.
Eftir síðaskiptin jókst vald konungs og hann eignaðist klausturjarðirnar. Biskupsstólarnir voru þó áfram reknir sem sjálfseignarstofnanir og urðu miðstöðvar íslenskrar menningarstarfsemi. Þeir stóðu fyrir skólahaldi, bókaútgáfu og sagnaritun.
Snemma á 15. öld hófu Englendingar að stunda fiskveiðar af miklum móð á Íslandsmiðum og versla við heimamenn og er öldin stundum kölluð enska öldin. Síðar á sömu öld léku Þjóðverjar sama leik og börðust stundum við Englendinga um yfirráð yfir verslunarhöfnum. Þeir fluttu hingað ýmsan varning sem fæstir landsmenn höfðu áður augum litið.
Gripir frá tímabilinu
Varðveittir gripir frá tímabilinu tengjast gjarna nafnkunnum mönnum sem á þessum tíma máttu sín mikils og fóru jafnframt víða um lönd. Gripir kenndir við einstaka menn setja svip sinn á safnkostinn. Það á t.d. við um Guðbrand biskup Þorláksson á Hólum.
Minna hefur fundist af minjum um líf alþýðufólks. Þó hafa hversdagsgripir verið grafnir úr rústum sem fólust undir jarðveg í eldgosum. Þeir veita skýra mynd af lífi fólksins á þessum tíma. Fátítt er að fatnaður finnist en þó eitthvað af tignarklæðum presta og biskupa. Vafalítið geymir jörðin enn margvíslegan vitnisburð um lífshætti þjóðarinnar á 15. og 16. öld.
Gripir 1400 - 1600


Guðbrandsbiblía
1584
Hólar í Hjaltadal - Háls, Fnjóskahreppur, S-Þingeyjarsýslu
39 x 27 x 11 cm
Pappír, skinn
Guðbrandsbiblía var fyrsta prentun Biblíunnar í heild sinni á íslensku. Það var Guðbrandur Þorláksson biskup sem prenta lét Biblíuna á Hólum 1584 og því er hún kennd við hann.
Biblían var prentuð í 500 eintökum og tók prentunin tvö ár. Hverri kirkju var skylt að leggja einn ríkisdal til verksins og kaupa að auki eintak af bókinni. Guðbrandsbiblía var því víða til í kirkjum fram eftir 19. öld og þykir enn eitt fegursta prentverk á íslensku.
Þetta eintak er í ákaflega fallegu bandi sem er lítið yngra en biblían sjálf. Eintakið er bundið í skinn og með látúni. Það var í eigu Kristínar dóttur Guðbrands biskups. Síðan átti það sonur hennar, Þorlákur Arason á Staðarfelli, og var eintakið lengi í kirkjunni þar. Band Biblíunnar er upprunalegt.
Það var Jón biskup Arason sem fékk hingað til lands lítið prentverk um 1530 og jafnframt sænskan prentara. Lengi framan af var fyrst og fremst prentað guðsorð og nánast frá upphafi var flest prentað á íslensku, enda varð íslenska kirkjumálið.
Munur: Þjms. 1902/1881-37


María, líkneski
1450 - 1550
Eyri, Skutulsfirði
97,3 cm
Viður
Líkneski úr kirkjunni á Eyri í Skutulsfirði. Kirkjan var helguð Maríu mey og Jóhannesi postula. Kaþólskar kirkjur áttu flestar líkneski þeirra dýrlinga sem þær voru helgaðar. Eftir siðaskiptin var líkneskjum helgra manna flestum eytt enda litin öðrum augum í Lúterskum sið. Myndum af Maríu og Kristi á krossinum var þó eirt. Líkneskið er talið vera gert hér á landi.
Munur: Þjms. 3219/1889-31


Draflastaðaklæðið
1400 - 1500
Draflastaðir, Fnjóskadal, S-Þingeyjarsýslu
109 x 117 cm
Strigi, ull
Draflastaðaklæðið er gæluheiti altarisklæðisins Dýrlingar, en refilsaumsklæðin íslensku eru gjarnan kennd við þær kirkjur sem þau tilheyrðu.
Í reitunum níu er efni úr helgisögum og ritningunni. Reitirnir sýna eftirfarandi, talið frá efstu röð, frá vinstri til hægri: 1: Jóhannes skírari og óþekktur biskup. 2: María með barnið og heilög Katrín. 3: Anna og María með barnið. 4: Andrés og Páll postular. 5: María með barnið, krýnd í hásæti. 6: Jóhannes postuli og Pétur postuli. 7: Tveir óþekktir dýrlingar. 8: Tveir óþekktir biskupar, gætu verið hinir helgu biskupar Jón og Þorlákur. 9: Heilög Dórótea og heilög Katrín.
Refilsaumur er forn útsaumsaðferð og er ákaflega vel fallin til listrænnar myndsköpunar. Saumgerðin dregur nafn sitt af orðinu refill. Reflar voru skrautleg tjöld úr ull eða líni sem höfð voru til þess að tjalda innan bæði kirkjur og híbýli fólks fyrr á tíð. Á Íslandi varðveittust fimmtán refilsaumsklæði. Níu þeirra eru varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands, eitt í Louvre safninu í París, fjögur í Nationalmuseet København og eitt í Rijksmuseum Twente í Hollandi.
Refilsaumsklæðin voru unnin af listfengum konum sem bjuggu yfir þekkingu og þjálfun í vefnaði og útsaumi og eru meðal merkustu listaverka fyrri alda og bera íslenskri kirkjulist fagurt vitni. Elstu klæðin eru frá því skömmu fyrir 1400 en hið yngsta frá árinu 1677.
Refilsaumur er aðeins eitt útsaumsspora sem notuð voru á miðöldum og er afbrigði af útsaumi sem nefndur er lagður saumur. Bayeux-refillinn er líklega þekktasta listaverkið sem saumað er með refilsaumi.
Munur: Þjms. 3924/1893-134


Álfapotturinn
1400 - 1600
Garður, Ingjaldssandi
12,8 x 10,12 cm
Kopar
Pottar af þessu tagi voru algengir á seinni hluta miðalda og brot af þeim finnast oft í bæjarrústum.
Pottinum fylgir skemmtileg þjóðsaga frá 19. öld en samkvæmt henni varð Pálmi Guðmundsson var við álfaför á gamlárskvöld í byrjun 19. aldar. Drengur sem dregist hafði aftur úr hópnum bar pottinn, en lét hann frá sér til að vera léttari á fæti þegar hann hljóp flokkinn upp. Pálmi þessi tók pottinn til handargagns, þótt honum þætti potturinn nokkuð einkennilegur.
Munur: Þjms. 2050/1882-8
Konungseinveldi
Í Evrópu var tímabilið mikið umbreytingarskeið. Straumar upplýsingarinnar og iðnbyltingarinnar bárust vissulega til Íslands en höfðu ekki þau gríðarlegu áhrif á framfarir og fólksfjölgun hér líkt og annars staðar í álfunni.
Fyrsta varðveitta manntal í heiminum þar sem heil þjóð er skráð með nöfnum er manntal sem ráðist var í á Íslandi að undirlagi konungs árið 1703. Íslendingar reyndust vera 50.358. Þar af höfðu einungis 800 starfstitil sem bennti til annars starfa en búskapar eða vinnumennsku, sem er minna en 1% fullorðinna íbúa. Fjömennastir voru prestar, 245, og þjónustustúlkur voru 142. Manntalið sýnir þversnið af einhæfu samfélagi við upphaf iðnbyltingarinnar í Evrópu.
Konungsvaldið og framfarasinnaðir Íslendingar reyndu að stuðla að nýjungum í atvinnulífi. Menntamenn sóttu háskólanám til Kaupmannahafnar, reynt var að kenna Íslendingum að rækta korn, gerðar tilraunir með ullariðnað í verkstæðum og skipuleg lestrarkennsla hófst á 18. öld. Í Reykjavík varð til vísir að þéttbýli og fyrstu steinhúsin byggð. En allt kom fyrir ekki og lifnaðarhættir héldust að mestu í sama horfinu alla öldina og í lok hennar hafði íbúum fækkað.
Skaftáreldar hófust árið 1783. Þeim fylgdu kuldar og móðuharðindi sem létti ekki fyrr en árið 1785. Fólk hraktist af jörðum sínum, búfénaður stráféll og hungursneyð ríkti. Áður en yfir lauk hafði um fimmtungur þjóðarinnar fallið.
Vald konungs jókst hér á landi eftir siðaskiptin. Konungur sett á danska verslunareinokun á Ísland árið 1602 og stóð hún til ársloka 1787.
Gripir frá tímabilinu
Þegar kemur fram yfir siðaskipti fjölgar varðveittum gripum til muna. Útskornir trémunir setja svip sinn á safnkostinn, kistlar, skápar og trafakefli svo dæmi séu nefnd og einnig kvenskart og silfurgripir heldra fólks. Sammerkt er þessum gripum að þeir hafa varðveist manna á meðal þar til safnmenn hafa sóst eftir þeim eða eigendum þótt svo mikið til þeirra koma að þeir hafa gefið þá safninu.
Listsköpun og alþýðumenning verður sýnilegri, þótt vitaskuld séu varðveittir gripir fremur úr fórum þeirra sem meira máttu sín. Varðveisla fatnaðar er glöggt dæmi þar um, í safninu er fatnaður heldri kvenna en hversdagsfatnað vantar með öllu og karlmannaföt eru varla til.
Gripir 1600 - 1800


Drykkjarhorn lögréttumanns
1598
Ísland
ca 60 cm
Nautshorn
Drykkjarhorn, skorið af Brynjólfi Jónssyni bónda í Skarði í Landsveit. Eitt af fáum hornum sem varðveist hafa, en útskorin íslensk drykkjarhorn eru einstakir listgripir í alþjóðlegu samhengi. Brynjólfur hefur verið hagur myndskeri og ætla má að hann hafi haft nokkra atvinnu af útskurði þar sem fleiri útskurðir eru til eftir hann.
Myndirnar á horninu sýna atburði úr Gamla og Nýja testamentinu. Efst er brúðkaupið í Kana þar sem Kristur breytti vatni í vín. Borðbúnaðurinn er eins og á tímum Brynjólfs. Þá sést Júdít drepa assýríska herforingjann Hólófernis. Neðst leggur Jóab herforingi sverði sínu gegnum Absalon, son Davíðs konungs. Absalon hangir á hárinu í eikartré en múldýrið hans hleypur á brott. Á mjórri enda hornsins, stiklinum, er maður í gini dreka. Áletranir á horninu eiga við myndirnar. Þar er einnig ártalið 1598 og nafn Þorleifs Ásmundssonar sem lét gera hornið. Þorleifur var lögréttumaður á Hvoli í Hvolhrepp og mágur Brynjólfs.
Að jafnaði eru nöfn og verk alþýðunnar á sautjándu og átjándu öld gleymd. Brynjólfur Jónsson telst til fyrstu íslensku myndlistarmanna sem með verkum sínum hafa orðið þjóðkunnir. Í list hans og samtíðarmanna hans togast á íhaldssemi eyjarskeggjans norður í Dumbshafi og áhrif erlendra strauma. Eftir Brynjólf eru þekkt þrjú önnur drykkjarhorn sem öll eru í erlendum söfnum. Þekktustu verk Brynjólfs eru þó hvalbeinsspjöld úr Skarðskirkju. Þannig má segja að Brynjólfur Jónsson hafi sjálfur skorið nafn sitt á spjöld sögunnar.
Í eigu danska Þjóðminjasafnsins. 1427/1943.


Staup
1500 – 1600
Ísland
5,6 x 5,9 cm
Bein
Töluvert var flutt inn af munaðarvöru frá Evrópu. Í verkum íslenskra hagleiksmanna má víða greina erlend áhrif og sumt jafnaðist á við það besta sem smíðað var erlendis. Þetta staup, sem skorið er úr tönn er prýðilegt dæmi um það.
Munur: Þjms. 302/1865-111


Gríma frá Stóruborg
1600 – 1700
Stóraborg undir Eyjafjöllum
35 x 19,5 x 4 cm
Viður
Gríma höggvin úr tré og gróftálguð. Ekki er vitað til hvers hún hefur verið notuð. Gríman gæti hafa verið notuð til að gæða lífi magnaðar þjóðsögur af draugum og öðrum kynjaverum. Einnig er hugsanlegt að hún hafi verið barnaleikfang eða notuð við einhvers konar skemmtanir. Er hætt við að hrekklausum hafi brugðið illilega í brún að mæta þessu ófagra andliti í rökkrinu í bæjargöngunum á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum. Gríman fannst við fornleifarannsóknir.
Munur: 80-379/1980-121-379


Rímtal
1615
Ísland
262 x 8 cm
Pergament, látún
Orðið 'rím' merkir almanak eða tímareikningur og þaðan er komið orðtakið „að ruglast í ríminu“ í merkingunni að missa þráðinn eða samhengið. Rímtal er því eins konar almanak sem nær yfir nokkurra ára bil. Það er skrifað á pergamentsræmu og undið inn í látúnshylki.
Á rímtalinu er ártalið 1615 og nafn eigandans, Snorra Jónssonar, sem ekki er vitað hver var.
Munur: Þjms. 10936/1930-347
Þjóðin og þéttbýlið
Þjóðernisstefnu óx fiskur um hrygg á fyrri hluta 19. aldar líkt og annars staðar í Evrópu og Íslendinga dreymdi um að verða sjálfstæð þjóð.
Alþingi (sem lagt hafði verið niður árið 1800, enda nær valdalaust) var endurreist í Reykjavík árið 1845. Alþingi fékk löggjafarvald með konungi – en raunin var sú Íslendingar höfðu takmarkaða sjálfsstjórn. Kosningarétt hafði um helmingur uppkominna karlmanna.
Árið 1874 fengu Íslendingar svo sína fyrstu stjórnarskrá. Mikil hátíð var á Þingvöllum við þetta tilefni og Danakonungur heimsótti Ísland í fyrsta sinn til að vera viðstaddur hátíðina.
Sjálfstæðisbaráttan varð til þess að einokunarverslun var aflétt og verslun við Ísland var frjáls öllum þjóðum 1855 og var það mikið framfaraskref fyrir Íslendinga í mörgum skilningi. Þéttbýlismyndun hófst og innlend kaupmannastétt varð til.
Íslendingar hófu veiðar á þilskipum, skútum, sem gerðu mönnum mögulegt að hafa fiskveiðar að aðalatvinnu. Í fyrstu voru þilskipin einkum notuð til að veiða hákarl, en hákarlalýsi var eftirsótt í evrópskum borgum og notað til götulýsingar. Selveiðar fóru einnig vaxandi og selskinn flutt út. Á skútum mátti sækja lengra og afla meira en á árabátum. Legið var úti vikum saman og fiskurinn saltaður um borð. Stærsti hluti aflans var þó enn sóttur á opnum árabátum.
Fátækt var mikil og útbreidd. Á fyrri helmingi aldarinnar fjölgaði Íslendingum um 40% og fólksfjölgunin gerði fólki erfitt fyrir. Hlutfallslega margt fólk var á giftingar- og barneignaaldri, erfitt var að fá jarðnæði og litla vinnu að fá í sjávarþorpum, auk þess sem öreigagiftingar voru bannaðar. Fátæku fólki var því gert nær ómögulegt að stofna fjölskyldu og búa sér gott líf. Hvergi í Evrópu var hlutfall vinnuhjúa hærra en á Íslandi og lausaleiksbörn voru mörg.
Á síðari hluta aldarinnar reið eitt mesta kuldaskeið Íslandssögunnar yfir og ekki batnaði ástandið þegar Askja gaus árið 1875. Öskjugosið er talið eitt mesta öskugos á Íslandi. Á aðeins nokkrum klukkutímum varð svo gífurlegt vikur- og öskufall að jarðir fóru í eyði á Austurlandi og mikil harðindi fylgdu í kjölfarið. Náttúruhamfarir þessar juku á bágindi fátæks fólks og ollu landflótta til Vesturheims, aðallega Manitoba í Kanada og nyrstu fylkja Bandaríkjanna.
Gripir frá tímabilinu
Árið 1863 var Forngripasafnið, sem síðar varð Þjóðminjasafn Íslands, stofnað. Í fyrstu var lögð áhersla á að safna jarðfundnum forngripum, kirkjugripum og öðrum listgripum frá fyrri öldum og merkum fornum gripum forðað frá glötun. Það var ekki fyrr en síðar að farið var að safna hversdagslegum gripum sem gefa mynd af lífi alþýðufólks.
Mynd okkar af Íslendingnum skýrist verulega á 19. öldinni. Atvinnutól og tæki hafa varðveist og ljósmyndatæknin varð til sem gerir okkur kleift að skoða fortíð okkar og túlka hana. Útskornir gripir setja enn mark sitt á safnkostinn, einnig útsaumur og vefnaður. Tækjum og tólum fjölgar til muna.
Gripir 1800 - 1900


Skautbúningur Sigurlaugar í Ási
1860
Steinnes, Sveinsstaðahreppi, A-Húnavatnssýslu
Bómull, klæði, sirs, ull
Skautbúningur sem Sigurlaug Gunnarsdóttir í Ási í Hegranesi saumaði sér vorið 1860 eftir leiðbeiningum Sigurðar Guðmundssonar málara. Meginhlutar skautbúnings Sigurðar voru treyja og samfella úr svörtu klæði. Á treyjunni var gull- eða silfurbaldýring, en á samfellunni neðst útsaumsbekkur. Belti var um mittið, gjarnan sprotabelti. Á höfði var hvítur lágur króklaga skautfaldur (skaut) með samlitri faldblæju og faldhnút. Með faldinum var haft gyllt koffur eða spöng. Búningnum gat fylgt möttull, fremur síð ermalaus yfirhöfn.
Búningur Sigurlaugar er með einföldum baldýruðum laufaviði úr silfurþræði á treyjubörmunum, og blómstursaumaða bekkinn neðan á samfellunni teiknaði Sigurður. Þetta er elsti varðveitti skautbúningur sem um er vitað. Koffrið (ennisdjásnið) er smíðað af Sigurði Vigfússyni gullsmið og síðar forstöðumanni Forngripasafnsins, en beltið er eftir óþekktan smið.
Sigurður Guðmundsson málari (1833-1874) hafði mikinn áhuga á öllu sem laut að íslenskri þjóðmenningu. Hann vildi bæta listmennt og smekk landa sinna og setti í því skyni fram hugmyndir að endurbættum hátíðarbúningi kvenna. Skautbúningurinn náði vinsældum á skömmum tíma og leysti gamla faldbúninginn af hólmi.
Sigurður hannaði einnig kyrtil, sem var einfaldari búningur en skautbúningur. Við kyrtilinn var borinn skautfaldur. Búningar Sigurðar eru notaðir enn í dag sem viðhafnarbúningar.
Búningurinn kom til Þjóðminjasafnsins úr dánarbúi Ingibjargar Guðmundsdóttur, uppeldisdóttur Áshjónanna.
Munir:
Þjms. 7232/1916-171, Þjms. 7233/1916-172, Þjms. 7230/1916-169, Þjms. 7234/1916-173, Þjms. 1986-1442


Selskinnsskór
1880 – 1900
Teigur, Hvammssveit, Dalabyggð
30 x 10,5 cm
Selskinn, ull
Venjulegir skinnskór eins og tíðkuðust fram á 20. öld, úr selskinni og bryddaðir með eltu sauðskinni, en hæl- og tásaumur eru gerðir í saumavél. Í skónum eru prjónaðir leppar með áttablaðarós.
Munur: Þjms. 12393/1938-62


Teikning eftir Sólon Islandus
1858 – 1888
Ísland
26 x 20 cm
Pappír
Teikning eftir Sölva Helgason, Sólon Islandus, (1820-1895). Á blöðum Sölva, teikningum og skrifum eru einkum skrautlegir upphafsstafir, fangamörk, blóm og mannamyndir. Á sumum er prúðbúinn yngismaður sem á að vera Sölvi sjálfur og sum fangamörkin eru upphafsstafir ýmissa nafna, er hann gaf sér sjálfur.
Sölvi skrifaði afar smágerva rithönd, þannig að erfitt er að lesa. Á blöðunum eru meðal annars ferðasaga, stjörnufræði, fornaldarsaga og takmarkalaust hól um hann sjálfan og botnlausar skammir um aðra.
Sölvi Helgason átti sjaldnast fast heimili en flakkaði víða um land í meira en hálfa öld, lét mikið yfir sér og þóttist oft vera lærður maður og sigldur. Hann var listhneigður og á safnið margar teikningar eftir hann. Sölvi var margbrotin persóna, að ýmsu leyti gæddur góðum gáfum en sérvitur í meira lagi og landsþekktur fyrir skringilegheit og andóf sitt og uppreisn gegn yfirvöldum og lagaboðum. Hann orti svo um sjálfan sig:
Ég er gull og gersemi,
gimsteinn elskuríkur,
ég er djásn og dýrmæti,
drottni sjálfum líkur.
Munur: Þjms. 8839-108/1923-149-108


Á vökunni
1861
Danmörk
127 x 103 cm
Olíulitir
Olíumálverk eftir danska málarann H. A. G. Schiött sem var hér á landi 1861. Myndin sýnir baðstofulíf á íslenskum bóndabæ á kvöldvökunni. Húsbóndinn situr við skinið af lýsislampa og les fyrir heimilisfólkið sem ýmist stendur eða situr við vinnu sína.
Baðstofan var alhliða íveruhús þar sem fólk vann, mataðist og svaf. Fólk naut ylsins hvert af öðru á köldum vetrarnóttum. Tveir og tveir sváfu saman í rúmum, oft fullorðinn og barn. Talið er að fólk hafi venjulega sofið nakið. Á sumum bæjum var baðstofan höfð uppi yfir fjósinu, s.k. fjósbaðstofa, og ylurinn af kúnum þannig nýttur til húshitunar.
Á auðugum heimilum höfðu húsbændur sérstakt svefnhús og einhleypir karlmenn sváfu í skála.
Munur: Víd-60
Ljósmyndir úr safneign.
Skoðaðu úrvalið í vefverslun.
Secondary text to use when needed
