Birta, blek og brillur

Hvaða muni þurfti fólk, og hafði aðgang að, til lesa bækur, geyma þær og flytja milli staða á 19. öld? Hvernig birtist þessi efnisheimur okkur í safnkosti Þjóðminjasafns Íslands og annarra minjasafna og hvað segja dánarbúsuppskriftir um málið?
Davíð Ólafsson sagnfræðingur og lektor í menningarfræði á Hugvísindasviði Háskóla Íslands verður með erindi í Þjóðminjasafninu þriðjudaginn 29. nóvember klukkan 12:00 þar sem hann veltir upp þessum spurningum. Fyrirlestrinum er streymt beint á YouTube-rás Þjóðminjasafnsins.
Í erindi sínu fjallar Davíð um þá efnislegu hluti sem tilheyrðu bóklegri iðkun á 19. öld á Íslandi. Meðal þess sem hefur verið rannsakað innan verkefnisins Heimsins hnoss er eignarhald á bókum og handritum. En til viðbótar við bækurnar sjálfar kalla lestur og skrift á tilvist og notkun fjölmargra annarra gripaflokka.
Árið 2018 hlaut rannsóknarverkefnið Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking öndvegisstyrk frá Rannís. Rannsóknin fólst í því að varpa ljósi á efnislegar eigur fólks á síðari öldum og velta því fyrir sér hvernig þessir hlutir mynda menningararf íslensku þjóðarinnar í dag. Tvö ólík söfn um eigur fólks frá fyrri tíð lágu til grundvallar rannsóknarverkefninu. Annars vegar skjöl með upp skrifuðum dánarbúum Íslendinga í Þjóðskjalasafni Íslands og hins vegar munasafn Þjóðminjasafns Íslands.
Tilefni erindisins er sýningin Heimsins hnoss: Lúinn kistill, silfurskeið og nærbuxur (með gati) sem var opnuð 5. nóvember 2022 í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands. Sýningin teflir saman upplýsingum úr ofangreindum söfnum með það að markmiði að varpa ljósi á efnisheim fólks á 18. og 19. öld.