Ef garðálfar gætu talað

Í kjarrinu við rætur Laugarvatnsfjalls var byggð sem teljast verður einstök á landsvísu. Hjólhýsi, gerð til að þjóta um vegi og staldra stutt við urðu hjól-laus, staðbundin, hluti af umhverfinu. Þau stóðu þétt saman og hýstu fólk sem hafði þarna sumardvöl og veitti sköpun sinni útrás með öðrum hætti en heimafyrir.
Sem búsetuform var hjólhýsabyggðin visst millistig. Þorp en samt ekki. Sveit en samt ekki. Nema hvort tveggja væri. Náttúran mest fordekruð í blómapottum og svo hin alræmda, stundum misskilda en ávallt ómissandi mannlega náttúra. Nándin við grannana, sem var mun meiri en í hefðbundnum sumarhúsahverfum. Fólk hefur meiri ánægju en ama hvert af öðru.
Ljósmyndararnir Þórdís Erla Ágústsdóttir og Sigríður Marrow heimsóttu fyrir nokkrum árum hjólhýsabyggðina á Laugarvatni þar sem þær í þrjú sumur mynduðu mannlífið á staðnum. Sýningin er afrakstur þeirrar ljósmyndaskráningar og sýnir myndir af fólki sem naut samvista, hlúði að sjálfu sér og sinnti umhverfi sínu.
Á sama tíma verður sýningin Sumardvalarstaðurinn Laugarvatn á Vegg. Sýndar verða myndir frá Laugarvatni sem eru í eigu Ljósmyndasafns Íslands. Hér má kynna sér þá sýningu.
Ljósmyndir úr safneign og sérhannaðar fallegar vörur sem tengjast sýningarhaldi
