Andvari

Sýningin er samsýning sjö ljósmyndara. Þar af eru fimm samtímaljósmyndarar, þau Claudia Hausfeld, Daniel Reuter, Joakim Eskildsen, Kristín Hauksdóttir og Lilja Birgisdóttir. Einnig eru á sýningunni eldri myndir úr safneign Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni eftir Arngrím Ólafsson og Sigurð Tómasson.
Sameiginlegt öllum ljósmyndurunum er að þeir vinna með landslag í svart hvítum myndum. Myndbygging og nálgun við viðfangsefnið er hins vegar afar mismunandi og hver og einn þeirra hefur sín sérkenni. Myndefnið er oft íslensk náttúra, mannlaus auðn og hrjóstrugt umhverfi. Myndir Arngríms Ólafssonar skera sig úr þar sem þær sýna okkur fólk á ferð um Ísland, gangandi eða á hinum ýmsum farartækjum. Á sumum þeirra má sjá fjöll; fjarlæg, tignarleg og jafnvel ógnandi. Yfir ljósmyndunum ríkir kyrrð eða stilla eins og í íslenskum andvara. Fánar bærast vart og vindstefnu má aðeins greina út frá því hvernig reykur liðast úr reykháfum húsa.
Sýningin Andvari er ein af sýningum á Ljósmyndahátíð Íslands.
Ljósmyndir úr safneign og sérhannaðar fallegar vörur sem tengjast sýningarhaldi
