Norræna félagið 100 ára

Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir varaformaður og formaður afmælisnefndar Norræna félagsins segir frá afmælisárinu, spurningaskránni og örsögusöfnuninni í hádegisfyrirlestri í Þjóðminjasafninu.
Þann 29. september 2022 verða liðin 100 ár frá stofnun Norræna félagsins á Íslandi. Af því tilefni sendi Þjóðminjasafn Íslands út spurningaskrá á árinu þar sem leitað er eftir upplýsingum um viðhorf almennings til Norðurlandanna og norræns samstarfs. Í sumar var spurningaskránni fylgt eftir með viðtölum við valda einstaklinga. Til verksins voru fengnir nemar í Þjóðfræði við Háskóla Íslands. Sérstaklega var sóst eftir að finna skemmtilegar sögur og frásagnir, svokallaðar örsögur, sem tengjast norrænu samstarfi.
Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir hefur áratuga reynslu af norrænu samstarfi, bæði í starfi og einkalífi. Hún lauk mag.art. prófi í þjóðfræði frá háskólanum í Osló 1982 og starfaði um árabil sem sérfræðingur í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þar sinnti hún sérstaklega norrænum málefnum. Á árunum 1998-2002 var hún við Norrænu ráðherranefndina í Kaupmannahöfn og hélt þar m.a. utan um samstarf á vegum norrænu menningarstofananna og norrænnar barnamenningar.