Kona forntónlistarhátíð: Til þín María

Forntónlistarhátíðin Kona verður haldin í fjórða sinn í október og að þessu sinni á Þjóðminjasafni Íslands. Að hátíðinni stendur Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk, í samstarfi við Þjóðminjasafnið og styrkt af Tónlistarsjóði. Hátíðin samanstendur af þrennum tónleikum og leiðsögnum um grunnsýningu safnsins „Þjóð verður til“. Ólíkir munir og saga verða í brennidepli á hverjum viðburði. Flutt verður tónlist eftir konur sem brutust út úr hefðbundnum hlutverkum síns tíma til þess að sinna list sinni.
Leiðsögnin hefst í anddyri safnsins kl. 14 og verða tónleikar haldnir á 2. hæð að henni lokinni.
Gestir greiða einungis hefðbundinn aðgangseyri að safninu á viðburði hátíðarinnar. Aðgangur að safninu er ígildi árskorts og geta gestir því hlýtt á alla viðburði hátíðarinnar fyrir eitt verð.
Til þín María
Til þín, María er dagskrá þar sem María guðsmóðir birtist áheyrendum í listsköpun, tónum og tali. Innblástur sýningarinnar er bók Elsu E. Guðjónsson Með verkum handanna sem Þjóðminjasafn Íslands gaf út árið 2023. Í bókinni er fjallað sérstaklega um Maríuklæðið frá Reykjahlíð frá 15.öld sem varðveitt er á þjóðminjasafni Dana í Kaupmannahöfn auk fornra listaverka tengd Maríu sem varðveitt eru á Þjóðminjasafni Íslands. Lesið verður úr íslensku handriti Maríusögu frá 14. öld og ljóðabók Sonju B. Jónsdóttur Í myrkrinu fór ég til Maríu sem kom út árið 2023. Flutt verða fornir íslenskir Maríusöngvar og kvæði og verk eftir ítalska tónskáldið og nunnuna Isabellu Leonarda (1620-1704), þar á meðal brot úr mótettu op. 14 In te Maria, sem verður frumflutningur á Íslandi.
Flytjendur:
Diljá Sigursveinsdóttir, söngur, barokkfiðla og upplestur
Anna Hugadóttir: barokkvíóla
Sólveig Thoroddsen, barokkharpa
Sergio Coto Blanco, theorba











