Með verkum handanna

Dýrgripir íslenskrar listasögu á tímamótasýningu sem haldin er í tilefni af 160 ára afmæli Þjóðminjasafnsins. Öll fimmtán íslensku refilsaumsklæðin sem varðveist hafa eru á sýningunni. Níu eru varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands en sex hafa verið fengin að láni frá erlendum söfnum, eitt frá Louvre safninu í París, fjögur frá Nationalmuseet København og eitt frá Rijksmuseum Twente í Hollandi.
Refilsaumsklæðin eru meðal merkustu listaverka fyrri alda og bera íslenskri kirkjulist fagurt vitni. Elstu klæðin eru frá því skömmu fyrir 1400 en hið yngsta frá árinu 1677.
Refilsaumur er saumgerð sem dregur nafn sitt af orðinu refill. Reflar voru skrautleg tjöld úr ull eða líni sem höfð voru til þess að tjalda innan bæði kirkjur og híbýli fólks fyrr á tíð. Refilsaumur er aðeins eitt útsaumsspora sem notuð voru á miðöldum og er afbrigði af útsaumi sem nefndur er lagður saumur. Þessi meistaraverk íslenskrar miðaldalistar voru unnin af listfengum konum sem bjuggu yfir þekkingu og þjálfun í vefnaði og útsaumi.
Sýningin er árangur og niðurstöður áratugarannsókna Elsu E. Guðjónsson (1924-2010) á refilsaumi. Elsa starfaði á Þjóðminjasafni Íslands í rúm 30 ár.
Í fyrsta sinn sem öll íslensku refilsaumsklæðin eru sýnd á sama stað
Það er fátítt að sýning með svo mörgum lánsgripum frá erlendum söfnum sé sett upp hér á landi. Lánsgripirnir þurfa sérstaka meðhöndlun og lúta ströngum skilyrðum lánssafnanna um flutning, varðveislu og sýningarbúnað. Áralangar rannsóknir innan Þjóðminjasafnsins hafa skipt sköpum til þess að lán og flutningur á svo dýrmætum gripum geti orðið að veruleika.
Viðburðahald og málþing
Fjölbreytt viðburðahald var meðfram sýningunni; hádegisfyrirlestrar um einstök klæði, sérfræðileiðsagnir, námskeið og barnadagskrá.
Í janúar 2024 var efnt til málþings um rannsóknir Elsu E. Guðjónsson og verkin á sýningunni.
Hér má nálgast málþingið, athugið að það er í tveimur hlutum:
Sýningin var tilnefnd til Íslensku safnaverðlaunanna, sjá umfjöllun hér. Aðsókn á sýninguna var með eindæmum góð og vakti hún mikla athygli. Hér má sjá brot af umfjöllun í fjölmiðlum:
Samstarfsaðilar sýningarinnar:
- Musée du Louvre
- Nationalmuseet i København
- Rijksmuseum Twenthe
Sýningin var styrkt af Icelandair
Með verkum handanna, útgáfa
Þann 5. nóvember 2023 kom út samnefnt verk Elsu B. Guðjónsdóttur þar sem áratugarannsóknir hennar eru lagðar fram í ríflega 400 síðna verki sem um 1000 ljósmyndir prýða.

Ritstjórar: Lilja Árnadóttir og Mörður Árnason
Umbrot og hönnun: Sigrún Sigvaldadóttir
Útgefandi: Þjóðminjasafn Íslands.
Bókin fékk fádæma góðar undirtektir. Hún hlaut Fjöruverðlaunin (sjá umsögn hér) og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Viðurkenningar Hagþenkis, (sjá rökstuðning hér).
Verkið fékk afar lofsamlega umsögn.
Með verkum handanna er einstakt afrek langrar ástundunar í skjóli Þjóðminjasafnsins, frábærlega unnið og uppsett af ritstjórum, ríkulega myndskreytt, alþjóðlegur mælikvarði um getu og starf íslenskra mennta.
Páll Baldvin Baldvinsson, Heimildin (sjá hér gagnrýni í heild sinni).
... fullyrða má að hér skín sólin á verk kvenna sem sátu og saumuðu listaverk í rökkri miðalda guði sínum til dýrðar og höfðu veður af meginlandsvindum og innlendri hefð. Elsa E. Guðjónsson hefur nú hafið þær á stall við hæfi og um leið opnað allar dyr til að endurskoða listasöguna.
Sölvi Sveinsson, Morgunblaðið.
Ljósmyndir úr safneign og sérhannaðar fallegar vörur sem tengjast sýningarhaldi
