Kirkjur Íslands: Leitin að klaustrunum

Klausturhald á Íslandi hófst með stofnun klausturs í Bæ í Borgarfirði árið 1030. Samtals voru þrettán klaustur stofnuð á fjórtán stöðum á kaþólsku tímaskeiði hérlendis en því síðasta var komið á fót á Skriðuklaustri árið 1493. Klaustrin urðu ásamt biskupsstólunum að umsvifamestu kirkjulegu stofnunum í landinu fram til siðaskipta. Þá var þeim lokað og kaþólsk trú bönnuð með lögum. Klausturhald féll í gleymsku og minjar úr klaustrum týndust.
Sýningin byggir á rannsókn Steinunnar Kristjánsdóttur, prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Í rannsókninni var leitað að hvers kyns vísbendingum um klausturhald í landinu frá 1030–1554. Notaðir voru jarðsjármælar til að kíkja undir svörðinn og könnunarskurðir grafnir þar sem vísbendingar sáust. Leitað var að klausturgripum í söfnum og kirkjum og að klausturplöntum, rústum og örnefnum úti á vettvangi. Heimildir voru lesnar, jafnt fornbréf sem þjóðsögur, auk þess sem farið var yfir kort og ljósmyndir.
Árið 2017 kom út bókin Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur, á vegum Sögufélags og Þjóðminjasafns Íslands. Áður kom út Sagan af klaustrinu á Skriðu árið 2012. Báðar bækurnar voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna í flokki fræðirita og til Viðurkenningar Hagþenkis. Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir hlaut Bókmenntaverðlaun félags bóksala 2017 og Viðurkenningu Hagþenkis 2017.
Sýningin er liður í hátíðarsýningaröð Þjóðminjasafns Íslands vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands og evrópska menningararfsársins 2018.
Sýningin er styrkt af Afmælisnefnd um 100 ára fullveldi Íslands.
Ljósmyndir úr safneign og sérhannaðar fallegar vörur sem tengjast sýningarhaldi
