Lengd heimsóknar
60 mínútur
Aldur
5. – 7. bekkur
heppilegur fjöldi
25 eða færri

Heimsókn í Þjóðminjasafnið er skemmtileg og fræðandi. Markmið safnkennara er að heimsóknin verði uppgötvunarleiðangur fyrir börnin. Þau eru hvött til að spyrja spurninga og tjá sig um það sem fyrir augu ber, sinn hugarheim og lífsviðhorf og hvort þau séu ólík því sem tíðkast hefur í gegnum aldirnar.

Viltu bóka heimsókn?

Í bókunarferlinu er valin heimsókn sem hentar hópnum. Hægt er að lesa nánar um heimsóknir sem eru í boði hér að neðan. Ekki hika við að senda okkur fyrirspurn í gegnum netfangið kennsla@thjodminjasafn.is.
Bóka heimsókn

Almenn leiðsögn um grunnsýninguna Þjóð verður til

Í heimsókninni er lögð áhersla á að nemendur upplifi Þjóðminjasafnið sem áhugaverðan stað til að heimsækja og kynnist þeim fræðslubrunni sem grunnsýning Þjóðminjasafnsins er. Leitast er við að efla samfélagsvitund nemendanna og ýta undir hæfni þeirra til að skilja veruleikann, umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna út frá sýningargripum og þeim frásögnum sem þeir geyma.

Bóka heimsókn

Í spor landnámsfólks

Í heimsókninni er fjallað um landnámstímann og fornleifar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar skoðaðar. Nemendur eru hvattir til að spyrja spurninga og tjá sig um sýningargripi, beinagrindur í kumlum og hugarheim landnámsfólks. Umræðuefnin eru margvísleg svo sem helgisiðir og trúarbrögð, heilbrigði, híbýlahættir, tíska, tæknikunnátta og lífsviðurværi. Fjallað er um daglegar athafnir út frá gripum sem þeim tengjast, svo sem hnefatafli, vopnum, silfursjóðum, eldfærum, skarti, vefnaði, mataráhöldum og verkfærum. Einnig er skoðað handrit af Íslendingabók, beinagrindur í kumlum og jarðvegssnið með öskulögum. Börnin kynnast aðferðum fornleifafræðinnar og hvernig draga má ályktanir af rannsóknum.

Bóka heimsókn

Ritöld og prentöld

Í heimsókninni er fjallað um upphaf ritaldar á þjóðveldisöld, sagnaritun og þróun bókagerðar fram yfir siðskipti þegar prentiðnin er innleidd á Íslandi. Heimsóknin er samspil fræðslu safnkennara, samtali og sjálfstæðri athugun nemenda á sýningunni. Lögð er áhersla á að nemendur sæki sér þekkingu á sýningunni, í margmiðlunarefni, sýningargripi, texta og hljóðstöðvar. Þegar safnkennari hefur leitt hópinn um sýninguna er honum skipt í fimm minni hópa sem rannsaka ákveðna þætti sýningarinnar út frá leiðbeiningum og upplýsingum á spjöldum sem safnkennari afhendir. Að heimsókn lokinni hafa nemendur kynnst þjóðfélagsgerð tímabilsins og þróun þess, sagnaritaranum og höfðingjanum Snorra Sturlusyni og hlutverki klaustra í menntun og menningu í landinu.

Bóka heimsókn

Trúarbrögð og siðaskipti

Þjóðminjasafnið varðveitir marga gripi sem tengjast trúarlífi Íslendinga fyrr á öldum. Safnkennari staldrar við slíka gripi en þar á meðal eru Þórslíkneskið, kuml úr heiðni, kirkjulíkan, kirkjuþil og fleiri kirkjugripir úr kaþólskum sið, Guðbrandsbiblía og aðrir munir sem tengjast lútherskunni. Einnig eru skoðaðir munir sem tengjast refsingum og galdraiðkun. Nemendur eru hvattir til að spyrja spurninga og tjá sig um hugarheim, lífsviðhorf og siðferði fólks á ólíkum tímum Íslandssögunnar. Að heimsókn lokinni hafa nemendur kynnst hugtökum trúarbragða, svo sem norræn goðafræði, heiðni, kristni, kaþólska, lúterska, helgisiðir og helgirit. Þau hafa kynnst táknum, myndum, skreyti og ýmsum búnaði sem tengist trúarbrögðum. Þau geta staðsett lykilpersónur úr sögunni í tíma og tíðaranda.

Bóka heimsókn

Séróskir - við sníðum heimsókn að ykkar óskum

Hvað er bekkurinn að fást við? Gæti heimsókn í Þjóðminjasafnið bætt einhverju skemmtilegu og nýju við viðfangsefnið? Safnkennarar geta mótað heimsóknir í samvinnu við kennara og tengt hana flestum viðfangsefnum. Gripir safnsins bjóða upp á ótal möguleika. Safnkennarar gefa frekari upplýsingar ef óskað er, sendið tölvupóst á: kennsla@thjodminjasafn.is.

Bóka heimsókn

Leiðarljós safnkennara

Úr Aðalnámsskrá

Menntagildi samfélagsgreina skv. Aðalnámskrá grunnskóla er haft að leiðarljósi í öllum heimsóknum:

  1. Hæfni nemanda til að skilja veruleikann (umhverfið, samfélagið, söguna og menninguna), sem hann hefur fæðst inn í, byggist á þeirri reynslu sem hann hefur orðið fyrir. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka reynsluheim nemandans.
  2. Hæfni nemanda til að átta sig á sjálfum sér byggist á því hvaða mynd hann gerir sér af sjálfum sér (og öðrum) í eigin huga. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að víkka út og dýpka hugarheim nemandans.
  3. Hæfni nemanda til að mynda og þróa tengsl sín við aðra byggist á þeim félagsskap sem hann hefur tekið þátt í. Samfélagsgreinar eiga að efla þessa hæfni með því að virkja nemandann til þátttöku í félagsheimi sínum, þeim gildum og reglum sem þar ríkja. (Bls. 195)

Færi gefst á að þjálfa m.a. eftirfarandi hæfniviðmiðsamfélagsgreinaskv. Aðalnámskrá í heimsókninni:

Að nemandi geti:

  • skýrt tengsl samfélags, náttúru, trúar og lífsviðhorfa fyrr og nú
  • gert grein fyrir einkennum og stöðu Íslands í heiminum í ljósi legu og sögu landsins, breytilegrar menningar, trúar og lífsviðhorfa
  • lýst einkennum og þróun íslensks þjóðfélags og tekið dæmi um mikilvæga áhrifaþætti
  • rætt viðfangsefni sem snerta trú, lífsviðhorf og siðferði og sett í samhengi við atburði daglegs lífs
  • greint hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum
  • áttað sig á hvernig loftslag og gróðurfar hafa áhrif á búsetu og lífsskilyrði
  • sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn á völdum stöðum og tímum (bls. 198 – 203).
Fylgstu með

Skráðu þig á póstlista Þjóðminjasafnsins.

Þegar þú skráir þig á póstlista Þjóðminjasafnsins færðu boð á sýningaropnanir, fréttir af viðburðum og sýningum og tilboð í Safnbúð.

Takk!  Staðfestu skráninguna með því að smella á linkinn sem við vorum að senda þér.
Eitthvað fór úrskeiðis. Reyndu aftur.