Hvammur á Völlum, á 12. stundu

Sigurbjörn Ingvarsson, meistaranemi við Listkennsludeild Listaháskóla Íslands, segir frá yfirstandandi verkefni sem tengist Jóni Sigvaldasyni og baðstofunum hans austur á Hvammi á Völlum.
Jón var húsasmíðameistari, lærður í Kaupmannahöfn rétt fyrir aldamótin 1900, og tók þátt í síðasta byggingarskeiði torfbæjarins í kringum 1920-30. Fyrirlesturinn er í hádegisfyrirlestraröð Þjóðminjasafns Íslands og kallast á við sýninguna Á elleftu stundu sem stendur yfir í Myndasal og veitir innsýn í umfangsmikla og ómetanlega skráningu torfbæja hér á landi á áttunda áratug 20. aldar. Hvammur á Völlum er að hruni kominn og mikil þörf er á að gera húsinu skil í teikningu og uppmælingu áður en það hverfur aftur til jarðar.
Síðasta byggingastigið á Hvammi var tvílyft timburhús byggt í tótt eldri torfbaðstofu. Sérstaða þessarar húsagerðar er háar hleðslur á gafli sem nær allt að 5 metrum og spurning var hvort um torf- eða timburhús var að ræða. Hörður Ágústson fornhúsafræðingur hefur haft þau orð um þetta byggingarskeið að þá hafi timburhúsin verið að vaxa út úr torfbyggingunum.