Grýluskemmtun: Grýla kemur með jólaskellurnar og Leppalúða

Grýla og Leppalúði heimsækja safnið ásamt hinum kátu og uppátækjasömu jólaskellum; Flotsokku, Tösku og Leppatusku. Þær hafa sínar kenjar og sérkenni eins og bræður þeirra þrettán, jólasveinarnir.
Flotsokka er sólgin í flot og safnar því í sokkana sína, Leppatuska er nefnd eftir Leppalúða föður sínum og æðir á eftir honum með tuskurnar á lofti í Grýluhelli (þau sem ekki vilja fá skammir ættu að ganga snyrtilega um í desember). Taska stenst ekkert fallegt og laumar í tösku sína því sem glitrar og skín (passið vel upp á jólaskrautið).
Skemmtunin er orðin fastur liður í jólaundirbúningi fjölmargra fjölskyldna á höfuðborgarsvæðinu.
Aðgangur er ókeypis fyrir börn að 18 ára, en fullorðnir greiða 3.000 kr. aðgangseyri og fá þá árskort sem gildir á alla viðburði og sýningar safnsins í ár frá kaupum.
Við hlökkum til að sjá ykkur!











