Dánarbú frá 19. öld: hvað var skráð og hvað ekki?

Már Jónsson, prófessor í sagnfræðideild Háskóla Íslands, flytur hádegiserindi í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins, þar sem þetta verður gert að umtalsefni og spurt hvort nokkuð sé að marka þessa pappíra?
Tilefni erindisins er sýningin Heimsins hnoss: Lúinn kistill, silfurskeið og nærbuxur (með gati) sem var opnuð 5. nóvember 2022 í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands.
Sýningin teflir saman upplýsingum um dánarbú sem varðveittar eru í Þjóðskjalasafni Íslands og gripum úr munasafni Þjóðminjasafnsins með það að markmiði að varpa ljósi á efnisheim fólks á 18. og 19. öld.
Árið 2018 hlaut rannsóknarverkefnið Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking öndvegisstyrk frá Rannís. Að verkefninu stóð hópur hug- og félagsvísindafólks við Háskóla Íslands sem vann að því í samstarfi við erlenda sérfræðinga víða um heim. Rannsóknin fólst í því að varpa ljósi á efnislegar eigur fólks á síðari öldum og velta því fyrir sér hvernig þessir hlutir mynda menningararf íslensku þjóðarinnar í dag. Tvö ólík söfn um eigur fólks frá fyrri tíð lágu til grundvallar rannsóknarverkefninu. Annars vegar skjöl með upp skrifuðum dánarbúum Íslendinga í Þjóðskjalasafni Íslands og hins vegar munasafn Þjóðminjasafns Íslands.