Rannsóknarstaða í nafni dr. Kristjáns Eldjárns – Umsóknir óskast

Þjóðminjasafn Íslands auglýsir lausa 12 mánaða rannsóknarstöðu tengda nafni dr. Kristjáns Eldjárns, fyrrum þjóðminjavarðar og forseta Íslands, sbr. 3. gr. a. laga umÞjóðminjasafn Íslands nr. 140/2011 og reglugerð um Þjóðminjasafn Íslands nr.896/2006.
Samkvæmt reglugerðinni er staðan „ætluð fræðimönnum sem sinna rannsóknum á sviði íslenskrar menningarsögu sem fellur undir starfssvið Þjóðminjasafns Íslands.“
Í ár verður sérstök áhersla lögð á rannsóknir á sviði fatnaðar, textíla og búninga í safnkosti Þjóðminjasafns Íslands.
Um rannsóknina
Umsækjendur skulu leggja fram vel afmarkað rannsóknarverkefni. Mögulegt er að tengja verkefnið við rannsóknir sem þegar eru í gangi eða hafa verið unnar innan safnsins. Við val í stöðuna verður m.a. tekið mið af rannsóknarstefnu Þjóðminjasafnsins og stöðu þess sem háskólastofnunar.
Afhending og miðlun niðurstaðna
Verkefni, eins og það er afmarkað, lýkur með formlegum verklokum að samningstíma liðnum. Stefnt skal að því að rannsóknarniðurstöður verði birtar á viðurkenndum fræðilegum vettvangi, kynntar innan safnsins til dæmis með fyrirlestri, sýningu eða öðrum hætti og jafnframt varðveittar í Þjóðminjasafni Íslands. Um er að ræða 12 mánaða rannsóknarstöðu, með möguleika á framlengingu.
Umsókn og fylgigögn
Umsókn skal innihalda: Verkefnislýsingu með rannsóknaráætlun, útgáfu-, fræðslu- og kynningaráætlun, ferilskrá og afrit prófskírteina og sendist á netfangið ingibjorg.edvaldsdottir@thjodminjasafn.is í síðasta lagi 18. nóvember 2025.
Launakjör eru ákvörðuð af þjóðminjaverði í samræmi við reglugerð nr. 896/2006, innan marka kjarasamninga og fjárheimilda eins og segir í reglugerð.
Nánari upplýsingar veita: Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður: harpa.thorsdottir@thjodminjasafn.is eða Ingibjörg Eðvaldsdóttir mannauðsstjóri: ingibjorg.edvaldsdottir@thjodminjasafn.is