Teikning - þvert á tíma og tækni

Bókin er gefin út í tengslum við sýninguna Teikning - þvert á tíma og tæknií í Þjóðminjasafni Íslands 2012 - 2013. Sýningarefnið var teikningar fjögurra listamanna gerðar annars vegar seint á 18. öld og hins vegar í upphafi 21. aldar.
Þetta eru teikningar stærðfræðingsins John Baines frá Edinborg, sem fæddur var árið 1754, teikningar og grafíkmyndir eins þekktasta núlifandi myndlistarmanns á Norðurlöndum, Per Kirkebys frá Danmörku, málverk og teikningar íslensku listakonunnar Önnu Guðjónsdóttur, sem hefur verið búsett í Þýskalandi í fjölda ára og verk Þóru Sigurðardóttur, myndlistarmanns og sýningarhöfundar.
Teikningar John Baines, sem gerðar voru í leiðangri Sir John Thomas Stanley til Íslands og Færeyja árið 1789, miðla athugunum og greiningum vísindamannsins til áhorfandans. Myndir Kirkebys eru frá gönguferðum hans í Færeyjum og á Íslandi á árunum 2001 - 2008 og kallast á við jarðvísindalegan bakgrunn hans og vettvangsferðir um norðurslóðir. Nýleg verk Önnu Guðjónsdóttur hafa skýra vísun í könnunarferðir um lítt kannaðar slóðir og uppspretta grafískra teikninga Þóru Sigurðardóttur, frá 2011, er nánasta umhverfi og náttúra, hversdagsleg spor og ummerki tímans.