Aftur - Samtal við Sigfús Einarsson

Aftur – samtal við Sigfús Eymundsson eftir Einar Fal Ingólfsson ljósmyndara, rithöfund og blaðamann kemur út samhliða sýningunni Samtal við Sigfús - Í fótspor Sigfúsar Eymundssonar sem var opnuð í Þjóðminjasafni Íslands, 8. mars 2025.
Einar Falur hefur skrifað um ljósmyndir Sigfúsar (1837-1911) og fjallað um þær við kennslu í ljósmyndasögu árum saman. Undanfarin fjögur ár hefur Sigfús, eða myndir hans, verið fararstjóri á ferðalögum Einars Fals víða um land. Hefur hann bæði endurtekið valin sjónarhorn forvera síns sem og tekið sína eigin myndramma á sömu stöðum og Sigfús myndaði á, í einskonar dagbókarskráningu og samtali um land, sögu og sjónarhorn.
Bókin er sjálfstætt verk og inniheldur fjölda ljósmynda eftir bæði Einar Fal og Sigfús – sem sýna Ísland í fortíð og samtíð.
Fyrri fótsporaverk Einars Fals
Einar Falur rakti slóð vatnslitaverka W.G. Collingwood sem varðveitt eru í Þjóðminjasafninu. Því verkefni lauk með sýningunni Sögustaðir: Í fótspor W.G. Collingwoods og útgáfu samnefndrar bókar árið 2010. Sex árum síðar átti Einar Falur annað slíkt samtal er hann ljósmyndaði þá staði sem danski myndlistarmaðurinn Johannes Larsen hafði teiknað hér á landi á ferðum sínum árin 1927 og 1930.