Víðimýrarkirkja í Skagafirði

Torfkirkjan á Víðimýri var reist árið 1834 af Jóni Samsonarsyni smið og alþingismanni frá Keldudal. Líklega hefur kirkja fyrst verið reist á Víðimýri fljótlega eftir kristnitöku í landinu. Samkvæmt elsta máldaga frá um 1318 var kirkja á Víðimýri helguð Maríu guðsmóður og Pétri postula.
Víðimýrarkirkja er ein af örfáum torfkirkjum sem varðveist hafa á landinu og er meðal helstu gersema í Húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Innréttingar Víðimýrarkirkju bera vitni um rótgróna hefð í sætaskipan íslenskra kirkna eftir siðbreytingu. Karlmenn sátu sunnanvert, heldri menn í kór en konur norðanvert, þær heldri í stúku. Ýmsir gamlir munir eru í kirkjunni, sumir úr eldri kirkjum á staðnum. Altaristaflan, með ártalinu 1616, er líklega dönsk að uppruna og sýnir miðmyndin síðustu kvöldmáltíðina. Á íslensku er textinn undir altarisbríkinni svo hljóðandi:
„Svo oft sem þér etið þetta brauð og drekkið af bikarnum, boðið þér dauða Drottins, þangað til hann kemur.“ (1. Kor. 11:26).
Prédikunarstóll kirkjunnar er líklega frá 17. öld og eru myndir á honum mjög illa farnar af tímans tönn. Þær sýna Krist í miðju og guðspjallamennina til beggja hliða.
Sáluhliðið er frá 1936 en klukkur kirkjunnar eru báðar frá árinu 1630. Margir af eldri gripum Víðimýrarkirkju eru nú varðveittir á Þjóðminjasafni Íslands.
Í upphafi 20. aldar var tvísýnt um afdrif Víðimýrarkirkju en Matthías Þórðarson sem þá var þjóðminjavörður hafði forgöngu um varðveislu hennar og sá til þess að hún komst í umsjá Þjóðminjasafnsins. Kirkjan hefur verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands frá 1936.
Á heimasíðu Byggðarsafns Skagfirðinga að finna nánari upplýsingar um heimsóknir og aðgangseyri.
Hér má síðunni má nálgast bækling um kirkjuna:
