Stóru-Akrar í Skagafirði
Í Blönduhlíð í Skagafirði eru fjórir bæir, er ganga undir nafninu Akratorfa. Einn þeirra eru Stóru-Akrar, þar sem Skúli Magnússon, síðar landsfógeti, bjó mestan hluta sýslumannstíðar. Enn standa leifar af bæ sem hann lét byggja á árunum 1743-1745.
Eftir standa af bæ Skúla tvö samhliða hús, bæjardyr og stofa og á milli þeirra eru göng, sem liggja í krók aftan við húsin. Stofan var notuð sem þinghús á sínum tíma, og voru þar haldnir helstu fundir í hreppnum. Nýlunda var að stofan sneri stafni fram á bæjarhlað. Gengið var beint frá hlaði inn í þingstofuna en slík tilhögun varð síðar algeng á Norðurlandi á síðari hluta 18. aldar. Á henni eru nú ekki lengur útidyr.
Byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar má nálgast hér:

Timburgrind húsanna er sérstök, eins konar millistig af stafverki og grindarsmíð, sem ruddi sér rúms á 18. öld. Þilgerð er forn. Í húsunum er að finna athyglisverða viði úr eldri húsum á staðnum sem bera margs konar ummerki fyrri notkunar, sumir þeirra prýddir strikum til skrauts. Er þar nokkrar gerðir strika að finna, en strikun á viðum er ávallt vísbending um að þeir hafi verið í betri húsum. Þjóðminjasafn Íslands tók húsin í sína vörslu árið 1954. Gagngerar viðgerðir fóru fram ári síðar, og hefur eftir það verið dyttað að bænum eftir föngum.
Gestir eru velkomnir á eigin ábyrgð. Vinsamlegast gangið vel um.