Hvenær
Opið alla daga frá kl. 8 - 18
Hvar
Jökulsá á Fjöllum

Sæluhúsið við Jökulsá á Fjöllum var reist árið 1883 úr tilhöggnu grjóti úr nánasta umhverfi. Timbur, kalk, sement og önnur byggingarefni í húsið voru flutt alla leið frá Vopnafirði, Húsavík og Akureyri með aðkomu fjölda manna.

Jökulsá á Fjöllum var mikill farartálmi fyrr á öldum. Áin var hvergi talin reið, en áður voru lögferjur á stöðum þar sem umferð var mest.

Á 19. öld ruddu nýjar hugmyndir um byggingatækni sér til rúms á Íslandi og var bygging steinhúsa nýbreytni. Bygging Alþingishússins í Reykjavík árið 1881 lék hér nokkuð hlutverk og hafði þau áhrif að steinhúsum fjölgaði á Íslandi. Steinhlaðin hús voru tekin að rísa hér og hvar á Norðausturlandi nokkru áður en sæluhúsið reis af grunni. Meðal þeirra voru Þverárkirkja í Laxárdal (1878) og prestsbústaður á Sauðanesi (1879).

Gamalíel Einarsson var fenginn að byggingu sæluhússins sumarið 1883 sem aðalsmiður hússins en Sigurbjörn Sigurðsson, Jakob Sigurgeirsson og Friðrik Guðmundsson áttu þar einnig stóran hlut. Jakob Hálfdanarson mun hafa ráðið staðsetningu og útliti hússins. Landssjóður veitti fé til smíðinnar.

Hér má nálgast byggingarlýsingu Guðmundar L. Hafsteinssonar:

PDF Icon

Notkun hússins varð þó ekki sem skyldi sökum frásagna um reimleika. Talað var um að þar væru dýr á stærð við vetrungskálf, kafloðið og ægilegt. Húsið er hluti af sögusviði Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson, þar sem greinir frá ferðum Fjalla-Bensa, Benedikts Sigurjónssonar. Sæluhúsið hefur verið í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands frá 1988. Gestir eru velkomnir á eigin ábyrgð. Vinsamlegast gangið vel um.

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlista Þjóðminjasafnsins.

Þegar þú skráir þig á póstlista Þjóðminjasafnsins færðu boð á sýningaropnanir, fréttir af viðburðum og sýningum og tilboð í Safnbúð.

Takk!  Staðfestu skráninguna með því að smella á linkinn sem við vorum að senda þér.
Eitthvað fór úrskeiðis. Reyndu aftur.