Ullin: af sauðkindinni yfir í fullunnið fat eða klæði

Rúningur og ullarþvottur
Á vef Kvikmyndasafns Íslands, Ísland á filmu, er að finna þögult brot úr Íslandsmynd Sambandsins af ullarþvotti og rúningu.
Um myndbandið í suttu máli:
Smalar á hestum og hundar reka sauðfé í rétt. Ærnar eru rúnar en eftir að þeim er sleppt aftur eru lömbin fljót að finna spena móður sinnar. Ullin er þvegin við læk undir berum himni úr vatni og keytu í hlóðapotti sem kynt er undir með taði. Ullinni er þvælt í pottinum með priki, hún dregin upp úr og lögð á grind og látið síga úr henni. Síðan er hún undin og skoluð í læknum og loks lögð á túnbala til þerris. Að lokum er ullinni troðið í poka til flutnings og geymslu.
Myndbrotið á vefnum Ísland á filmu, brotið er tæpar 3 mínútur að lengd.
Orðskýring
Keyta (n, kvk)
Hland sem safnað var saman áður fyrr og notað til þvotta á ull. „Ullin var áður fyrr þvegin úr keytu sem var þvag úr fólki. Þá voru koppar/næturgögn undir hverju rúmi á bænum, sem menn köstuðu af sér vatni í að nóttunni. Því þvagi var safnað allt árið í tunnu og geymt, þar til ullin var þvegin“ (Stefán Aðalsteinsson; Sauðkindin, landið og þjóðin). (Af https://kollsvik.is/ordasjodur-kollsvikinga/168-ordhasjodhur-k)
Baðstofan og tóvinnan - Heimsókn í Þjóðminjasafnið með safnkennurum
Á grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands er baðstofa í fullri stærð og allt sem henni tilheyrir. Í myndbandinu hér fyrir neðan kynna safnkennarar baðstofuna og vinnuna með ullina. Snertisafn fyrir skólahópa og almenna gesti er kynnt og notað í sýnikennslu.
Orðskýring:
Tóvinna (n, kvk)
„Það var kölluð tóvinna að vinna band úr ullinni og flíkur úr bandinu... Fyrst var ullin táin. Þá var hún greidd í sundur milli fingra sér og jafnað úr henni. Tásan var síðan kembd í gömlu grófu kömbunum. Eftir því sem greiddist úr ullinni í kömbunum var kembda ullin dregin úr þeim í lengju sem kölluð var lopi og lögð í rimlakassa sem hét lár. Þetta hét að lyppa. Áður en rokkar komu til landsins á 18. öld var allur lopi spunninn í band á snældur. Lengi vel var allt band unnið í voðir. Það var ekki fyrr en á síðari hluta 16. aldar sem menn lærðu að prjóna hér á landi. Prjónarnir ollu hreinni byltingu í tóvinnu, því þeir voru léttir í meðförum og hver sem var gat lært að prjóna. Oft var prjónað í myrkrinu á vetrarkvöldum þegar ljósmeti var af skornum skammti. Tóvinnan var mjög mikilvægur þáttur í störfum þjóðarinnar. (Af https://kollsvik.is/ordasjodur-kollsvikinga/176-ordhasjodhur-t).

Frá bandi yfir í fullunnið fat eða klæði - Heimsókn í Þjóðminjasafnið með safnkennurum
Íslenska ullin
Hér má sjá fræðslumynd á vef Menntamálastofnunar sem fjallar um helstu eiginleika íslensku ullarinnar, meðferð, vinnslu og fjölbreytt notagildi hennar í fortíð og nútíð. Myndin er alls 26 mín. að lengd en hægt er að velja kafla til að sýna. Landssamtök sauðfjárbænda létu gera myndina árið 1996.
Fræðslumyndir Menntamálastofnunar eru aðeins til niðurhlaðs fyrir grunnskóla. Nauðsynlegt er að ip – tölur skóla séu skráðar hjá stofnuninni.

Lærðu að kríla vinaband
Hér er texti og leiðbeiningar um kríluð bönd í tímaritinu Hugur og hönd 1987.
Bönd eru til margra hluta nytsamleg. Bönd hafa verið notuð til þess að styrkja fatnað, til dæmis kantinn sem slitnar oft fyrst á pilsi eða ermum. Ýmislegt er bundið fast með böndum. Nú á dögum eru vinabönd gerð til að styrkja vináttu. Með því að blanda saman litum verður bandið skrautlegt og skemmtilegt. Þessi aðferð heitir að kríla og var þekkt hér á landi í gegnum aldirnar.
Í myndbandinu er sýnt hvernig hægt er að kríla vinaband.

Lærðu að vefa veggskraut
Allt klæði sem notað er í fatnað og í teppi og fleira, er ofið. Áður fyrr var ofið í höndunum við mannhæðarháan vefstað eða í vefstól sem mátti sitja við. Nú til dags er klæði ofið í stórum vélum. Með því að herma eftir því sem gert er í þessu myndbandi má kynnast því hvað vefnaður er og eignast í leiðinni lítið, fallegt veggskraut.


Þjóðsagan um Gilitrutt
Eftir hlustun má ræða um söguna. Var virkilega svona mikilvægt að húsfreyjan ynni alla þessa ull? Hvað var bóndinn að gera á meðan? Er Gilitrutt tröll? Hvað hefði gerst ef húsfreyjan hefði ekki getið rétt upp á nafninu? Endar sagan vel?

Ítarefni
Prjónað af fingrum fram heitir vefsýning Þjóðminjasafns Íslands í Sarpi. Sýningarstjóri er Inga Lára Baldvinsdóttir og myndefnið er úr Ljósmyndasafni Íslands. Prjón hefur fylgt Íslendingum frá því á fyrri hluta 16. aldar, þegar það barst til landsins með erlendum kaupmönnum.