Mjólkurpósturinn

Í dag er hægt að kaupa í matinn á netinu og fá vörurnar sendar heim að dyrum. En það er ekki algjör nýjung því í gamla daga var mjólkin flutt heim að dyrum með mjólkurpóstinum!

Í þjóðháttasafni Þjóðminjasafnsins eru frásagnir af ungum drengjum sem voru sendir í sveit á sumrin og störfuðu þar meðal annars sem mjólkurpóstar.
Einn segir frá því þegar hann var mjólkurpóstur og byrjaði hvern morgun á því að mjólka kýrnar, fylla glerflöskur með mjólk, setja flöskurnar í ullarsokka og koma þeim fyrir á klifbera á hesti. Síðan flutti hann mjólkina fótgangandi með hestinn í taumi til Þingeyrar sem var um 5 kílómetra leið. Þegar komið var í þorpið setti hann flöskurnar við útidyr viðskiptavina. Fyrir utan húsin stóðu tómar flöskur sem strákurinn tók til baka. Stundum fékk hann hressingu hjá húsmæðrunum t.d. mjólk og kleinur. Hann minnist þessara daga sem indælla tíma þótt sumir þeirra hafi eflaust verið bæði erfiðir og langir.
Annar segir frá því að hafa farið í sveit 9 ára gamall og fengið starf mjólkurpósts. Hann flutti mjólkina til Ísafjarðar og skilaði henni þar til viðskiptavina. Heimilin fengu mjólkina í glerflöskum en á sjúkrahúsið og elliheimilið var farið mjólkina í 20 lítra brúsum. Mjólkurferðin tók vanalega um 4-5 klukkustundir og gat verið erfið fyrir 9 ára gamlan dreng.
Gler, brúsar, hyrnur og fernur
Mjólkurumbúðir hafa breyst mikið í gegnum tíðina. Margir muna eflaust eftir mjólkurhyrnunum sem teknar voru í notkun upp úr miðri 20. öld. Af þeim tóku við hinar klassísku mjólkurfernur sem þó hafa breyst og þróast á síðustu árum.







