Á árunum 1995-2015 fór fram umfangsmikill uppgröftur á fornminjum frá 10 og 11. öld í Mosfellsdal. Rannsóknin miðaði að því að kanna samfélag fólks á landnámsöld og stuttu eftir hana. Grafin voru upp kirkja og kirkjugarður á Kirkjuhóli og skáli á Hrísbrú.

Í kirkjugarðinum voru vel varðveitt mannabein úr 21 gröf. Af þeim var hægt að greina níu karlmenn, fjórar konur og þrjú börn. Varðveisla annarra beina var það slæm að ekki var unnt að greina þau til kyns.

Rannsóknir á beinagrindunum gáfu góðar upplýsingar um heilsu, menningu og lífsskilyrði á tímum fyrstu landnemanna. Greiningar hafa sýnt fram á að þessi hópur fólks lifði að miklu leyti á kjötmeti og sjávarfæðu. Þær niðurstöður ríma mjög vel við rannsóknir á mannabeinum úr öðrum kirkjugörðum á Íslandi frá sama tíma. Strontíum-greiningar á flestum beinagrindanna sýndu fram á að þau voru fædd á Íslandi og voru þá líklega börn eða barnabörn þeirra sem byggðu landið á 9. öld. Á sumum beinagrindanna mátti sjá merki um sjúkdóma, svo sem berkla og gigt.

Var maðurinn höggvinn?

Á einni höfuðkúpunni í kirkjugarðinum var áberandi höggfar eftir eggvopn sem bendir til þess að einstaklingurinn hafi verið myrtur eða drepinn í bardaga. Þrátt fyrir fjálglegar lýsingar á morðum og bardögum í Íslendingasögunum er það afar sjaldgæft að finna beinagrindur frá þeim tíma með svo áberandi höggförum. Eðli málsins samkvæmt eru slík bein mjög viðkvæm. Til þess að auðvelda miðlun upplýsinga um slíkar minjar til áhugasamra var gert þrívíddarlíkan af hauskúpunni. Líkanið gerir áhorfandanum kleift að skoða hauskúpuna frá öllum hliðum án þess að það þurfi að handleika hana og hún verði fyrir hnjaski. Það tekur töluvert lengri tíma að gera slík líkön en að taka venjulegar stakar myndir, því þau eru samsett úr 100-200 myndum sem ljósmyndari safnins tók (Ívar Brynjólfsson). Ef vel er skoðað þá má sjá höggfarið í efri hluta hauskúpunnar hægra megin.

PDF Icon

Hauskúpan í þrívídd

Smelltu til að skoða í þrívídd. Þegar þú hefur smellt getur þú valið „full screen“ neðst hægra horninu.

Geislakolsmælingar og beinafræðilegar greiningar

Geislakolsmælingar benda til þess að þessi einstaklingur hafi verið fæddur á milli 805-970 og drepinn á tímabilinu 890-990. Beinafræðilegar greiningar á höfuðkúpu og mjaðmagrind hans benda til þess að þetta hafi verið karlmaður. Höfuðkúpu- og tanngreiningar gefa til kynna að hann hafi verið um 40-50 ára gamall þegar hann var lét lífið. Rákir á tönnunum benda til þess að hann hafi sem barn búið við skort. Ein afleiðing þess gæti verið sú að hann var lágvaxnari en flestir hinna karlanna sem fundust í kirkjugarðinum. Samsætugreiningar á beinum hafa einnig sýnt að maðurinn fékk um 30% af prótíninntöku sinni úr sjávarfæðu.

Á höfuðkúpu mannsins má sjá að á hann hafði tvisvar verið ráðist með einhverskonar eggvopni og höggin skáru hluta af höfuðkúpunni af. Hann var þó ekki höggvinn í herðar niður, en nálægt því. Stór hluti af höfuðkúpunni hægra megin hefur farið af, sem sýnir að höggið hefur verið töluvert. Sár af þessu tagi dregur menn til dauða á nokkrum mínútum. Það hefur því verið hrikalegt áhorfs. Blóð hefur spýst í allar áttir og heilinn lekið út. Sár af þessu tagi er einna helst hægt að tengja við beitt og þung vopn á borð við axir, sem voru líklega algengustu vopnin á þessum tíma. Förin á höfuðkúpunni eftir vopnið eru óslétt, sem bendir til þess að vopnið hafi verið mikið notað og orðið nokkuð eytt. Öxin sem notuð var gæti verið lík þeirri sem fannst í Þjórsárdal og var afhent safninu árið 1928 (þjms.10204). Sú öxi er á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins. Hauskúpan frá Kirkjuhóli er hins vegar varðveitt í varðveislumiðsstöð safnsins.

PDF Icon

Bændur eða blóðþyrstir víkingar?

Það er áhugavert að samkvæmt vitnisburði fornleifanna er maðurinn úr Mosfellsdal eitt örfárra öruggra dæma þess að einhver hafi verið drepinn með vopni á víkingaöld á Íslandi, þrátt fyrir fjölmargar lýsingar þess efnis í Íslendingasögunum. Ýmsar ástæður gætu legið þar að baki. Val á rannsóknastöðum gæti þar haft sitt að segja, sem og varðveisluaðstæður fyrir bein í jörðu, auk þess sem margs konar áverkar sem geta reynst lífshættulegir sjást ekki á beinunum. Þá eru ýmsir áverkar á beinunum af illgreinanlegum völdum sem gætu til að mynda verið eftir fall af hesti, slys á heimilum eða vinnuslys. Fornminjarnar eru því ekki vitnisburður um að fyrstu íbúar landsins hafi verið blóðþyrstir víkingar sem börðust og drápu hvern annan, heldur voru þeir líklega flestir bændur og búalið sem fengu slitgigt af líkamlegri erfiðisvinnu.

Heimildir og ítarefni

Höfundar:
Hrönn Konráðsdóttir og Joe W. Walser

Heimildir

Walker PL, Byock J, Erlandson JE, Holck P, Eng JT, Schwarcz H and Zori D. 2012. The Axed Man of Mosfell: Skeletal evidence of a Viking Age Homicide and the Icelandic Sagas. In ALW Stodder and AM Palkovick (Eds.), The Bioarchaeology of Individuals. Gainesville, FL, USA: University Press of Florida.

Zori D and Byock J (Eds.). 2014. Viking Archaeology in Iceland: Mosfell Archaeological Project. Turnhout Belgium: Brepols Publishing.

Hér má svo skoða hauskúpuna á Sarpi

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlista Þjóðminjasafnsins.

Þegar þú skráir þig á póstlista Þjóðminjasafnsins færðu boð á sýningaropnanir, fréttir af viðburðum og sýningum og tilboð í Safnbúð.

Takk!  Staðfestu skráninguna með því að smella á linkinn sem við vorum að senda þér.
Eitthvað fór úrskeiðis. Reyndu aftur.