Með verkum handanna

Með verkum handanna - Íslenskur refilsaumur fyrri alda
Creative Hands - Icelandic laid-and-couched embroideries of past centuries
Í verkinu eru lagðar fram áratugarannsóknir Elsu E. Guðjónsson textíl- og búningafræðings (1924-2010) á þeim fimmtán íslensku refilsaumsklæðum sem varðveist hafa. Í klæðunum er að finna einhver stórbrotnustu listaverk Íslendinga frá fyrri tímum og þau skipa sérstakan sess í alþjóðlegu samhengi.
Elsa skrifar af nákvæmni og alúð um feril, myndefni, tækni og sögulegt og listrænt samhengi hvers klæðis. Rannsóknir hennar eru einstakar í sinni röð og bókin, sem prýdd er hundruðum ljósmynda, ber þeim fagurt vitni.
Lilja Árnadóttir fyrrum sviðsstjóri á Þjóðminjasafni Íslands og samstarfskona Elsu til margra ára, lauk við verkið og bjó til prentunar. Sigrún Sigvaldadóttir hjá Hunangi hannaði bókina.
Fimm stjörnu dómar
Bókin hefur fengið afbragðsdóma. Í Heimildinni skrifaði Páll Baldvin Baldvinsson um bókina, þar sem sagði meðal annars:
Með verkum handanna er einstakt afrek langrar ástundunar í skjóli Þjóðminjasafnsins, frábærlega unnið og uppsett af ritstjórum, ríkulega myndskreytt, alþjóðlegur mælikvarði um getu og starf íslenskra mennta.
Í Morgunblaðinu þann 1. desember gaf Sölvi Sveinsson verkinu einnig fimm stjörnur með umsögn sem bar yfirskriftina Afreksverk. Hann segir m.a.:
... fullyrða má að hér skín sólin á verk kvenna sem sátu og saumuðu listaverk í rökkri miðalda guði sínum til dýrðar og höfðu veður af meginlandsvindum og innlendri hefð. Elsa E. Guðjónsson hefur nú hafið þær á stall við hæfi og um leið opnað allar dyr til að endurskoða listasöguna.
Sýning í Bogasal: Með verkum handanna
Í nóvember 2023 var opnuð samnefnd sýning í Bogasal á klæðunum fimmtán. Íslensku refilsaumsklæðin sem eru í eigu safna í Danmörku, Frakklandi og Hollandi hafa verið fengin að láni af þessu tilefni. Þjóðminjasafnið fagnar 160 ára afmæli sínu með þessari merku sýningu.