Í ljósmálinu / In the Light

Reykvíkingurinn og áhugaljósmyndarinn Gunnar Pétursson (1928-2012) myndaði af ástríðu alla ævi. Á sínum yngri árum ljósmyndaði hann borg og mannlíf á nokkuð einstakan hátt þar sem fletir, form og hreyfing voru ríkjandi þættir í myndfleti.
Gunnar var virkur í félögum áhugaljósmyndara um miðja síðustu öld en gekk einnig snemma í Ferðafélag Íslands. Hann ferðaðist um hálendið og ósnortna náttúru landsins og hið óhlutstæða eða abstrakta varð leiðarþráður í öllum hans náttúrumyndum löngu áður en slíkt varð að hefðbundinni náttúrusýn. Verk Gunnars eru þjóðinni lítt kunnug en abstrakt verk hans teljast í dag mikilsvert framlag til ljósmyndasögu Íslands. Safn ljósmynda Gunnars frá ólíkum tímaskeiðum er að finna í þessari bók.
Steinar Örn Erluson vann að verkefni í rannsóknarstöðu Kristjáns Eldjárns við Þjóðminjasafn Íslands á verkum Gunnars. Ítarleg grein Steinars um myndsýn, verk og stöðu Gunnars í ljósmynda- og menningarlegu umhverfi síns tíma er viðfangsefni bókarinnar.
Bókin er gefin út í tengslum við samnefnda sýningu í Myndasal Þjóðminjasafns Íslands 18.01.2020 – 30.08.2020.