Jólakort
DESEMBER 2017
Pk/2015-20
Í dag, á tímum margs konar samskiptamiðla og tölvutækni, eru sífellt færri jólakort send í pósti til að gleðja vini og vandamenn. Fyrir bragðið verða þau ef til vill enn verðmætari þeim sem þau fá. Það er óneitanlega góð tilfinning að fá frímerkt umslag í pósti sem inniheldur fallegt jólakort með hugljúfri jólakveðju.
Þegar samgöngur efldust í heiminum með tilkomu járnbrauta jukust einnig póstsamgöngur í kjölfarið. Frímerkið var fundið upp árið 1840 og fór nú fólk að senda hvert öðru bréf og póstkort, jafnvel landa á milli. Og auðvitað var þetta kærkomin leið til að senda vinum og ættingjum í fjarlægð kveðju á korti um jólahátíðina. Fyrsta prentaða jóla- og nýárskortið var gefið út í Englandi árið 1843.1
Annars var það nokkuð misjafnt eftir löndum hvenær framleiðsla jólakorta varð almenn og í Danmörku var fyrst notast við þýsk jólakort, allt þar til Danir fóru að framleiða sín eigin kort um 1880. Fyrstu jólakortin komu á markað á Íslandi um 1890 og voru dönsk eða þýsk og er elsta jólakortið sem varðveitt er í Þjóðminjasafninu danskt að uppruna, frá árinu 1891.2
Rétt undir aldamótin 1900 fóru síðan heimagerð íslensk jólakort að sjást í verslunum og eru elstu varðveittu íslensku jólakortin frá árinu 1900. Þau sýndu oft ljósmyndir af þekktum íslenskum byggingum og landslagi, gjarnan í vetrarbúningi, og þekkist slíkt myndefni á jólakortum enn þann dag í dag. Sömuleiðis var vinsælt áður fyrr að senda erlend jólakort af þekktum leikurum. Seinna á 20. öldinni fór að bera á teiknuðum jólakortum samtímis sem þau urðu æ algengari, sérstaklega á árunum milli stríða.3
Jólakortið sem hér er kynnt sem gripur desembermánaðar var sent á lýðveldisárinu 1944 og gefandinn er Lísa Thomsen. Þetta póstkort er 8,8 x 13,9 cm að stærð og myndin er af tréristu sem sýnir Austurvöll með Dómkirkjuna og Alþingishúsið í bakgrunni. Höfundur er skráður sem óþekktur en kortið er gefið út af Listverzluninni.
Gróa Finnsdóttir
Heimildir:
Árni Björnsson. (2006). Saga jólanna. Ólafsfjörður: Tindur.
Norræn jól. Jólasýning Þjóðminjasafn Íslands 1989. (1989). Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands [sýningarskrá].
Sarpur.is. Menningarsögulegt gagnasafn.
1) Árni Björnsson, 2006.
2) Sjá: Sarpur.is
3) Norræn jól, 1989.