Handbók um varðveislu safnkosts
Á degi forvörslu, 15. mars er útgefið seinna bindi handbókar um varðveislu safnskosts. Útgefandi er Þjóðminjasafn Íslands í samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri handbókarinnar er Nathalie Jacqueminet, varðveislustjóri á Þjóðminjasafni Íslands.
Handbók um varðveislu safnkosts er samstarfsverkefni höfuðsafnanna á Íslandi og afrakstur samvinnu sérfræðinga þessara stofnanna á sviði varðveislu. Hugtakið „safnkostur“ endurspeglar þá fjölbreytni sem er að finna í söfnum landsins þar sem safngripir eru margvíslegir: munir, ljósmyndir, bækur og skjöl.
Markmið handbókarinnar er að gera grunnþekkingu á eðli safngripa aðgengilega, útskýra í stuttu máli orsakir þess að þeir geta skemmst og orðið fyrir niðurbroti og veita ráðgjöf um hvernig hægt er að koma í veg fyrir að þeir verði fyrir frekari skemmdum. Vonandi mun lesandinn gera sér grein fyrir því að ábyrgðin á því að koma í veg fyrir skemmdir liggur ekki eingöngu hjá sérfræðingum í forvörslu heldur einnig hjá þeim sem í daglegu starfi meðhöndla gripi eða skjöl, hvort sem þeir starfa á safni eða eru í samstarfi við söfn (t.d. við uppsetningu sýninga). Bókin nýtist einnig öllum sem hafa áhuga á að fræðast um varðveislu menningararfsins.