Fréttir
  • Afhending Galtafells

Sumarhús Einars Jónssonar og innbú komið í vörslu Þjóðminjasafnsins

14.10.2016

 Fyrr á þessu ári keypti Ríkissjóður sumarhús Einars Jónssonar myndhöggvara að Galtafelli í Hrunamannahreppi. Sumarhúsið, sem var friðlýst 2014, verður hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands sem hefur umsjón með viðhaldi þess, en í húsasafninu eru varðveitt um 60 hús á 40 stöðum um land allt.

 Við athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu 21. október sl. afhentu fyrri eigendur hússins, þau Bjarni Stefánsson og Birna Björgvinsdóttir, Þjóðminjasafni Íslands til eignar og varðveislu innbú og persónulega muni Einars og konu hans Anne-Marie, sem verða nú hluti af safnkosti Þjóðminjasafnsins.

Sumarhús Einars og Anne-Marie á Galtafelli eru í raun tvö talsins, annað kallaði hann Slotið og er 20 fm að stærð, byggt árið 1923 og er hið eiginlega sumarhús og eitt hið elsta á landinu. Árið 1931 byggði hann Kotið sem er 14 fm. Í því var eldhús, forstofuherbergi og svefnloft. Með í kaupunum fylgir einnig sumarhús Bjarna og Birnu sem reist var á níunda áratugnum. Að viðgerð húsanna lokinni og endurgerð skrúðgarðs sem húsin standa í er stefnt að því að hafa húsin til sýnis fyrir almenning en ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær af því verður. Fyrirhugað er að hús Bjarna og Birnu gegni hlutverki þjónustu- og sýningarhúss þar sem tekið verður á móti ferðamönnum og sett upp sýning um líf og list Einars. Sýning í þjónustuhúsinu verður unnin í samvinnu við Listasafn Einars Jónssonar í Hnitbjörg í Reykjavík.Innbú Galtafell

Einar Jónsson ólst upp á Galtafelli og í endurminningum hans kemur fram hve heitt hann ann bernskuheimili sínu og það hafi verið ein heitasta ósk hans að reisa þar sumarbústað. Ósk hans varð að veruleika sumarið 1923 þegar Ungmennafélag Hrunamannahrepps aðstoðaði hann við að gera garða þar sem húsið átti að standa í skiptum fyrir afsteypu af mynd hans Þróun. Auk þess fékk hann fjárstyrk frá sýslunefnd Árnessýslu og fleiri aðilum þannig að hann gat hafist handa við byggingu hússins. Einari var umhugað um að varðveita tóft gamla fjóssins, þaðan sem hann átti margar gamlar og góðar endurminningar, og hafði hann gamla hlöðubásinn fyrir kjallara hússins. Einar dvaldi langdvölum í Galtafelli ásamt eiginkonu sinni og varð þessi staður endurnýjunarstöð bæði andlegra og ytri krafta, eins og hann segir í minningum sínum.

Innbú GaltafellHúsin bera með sér góða listræna sýn Einars og eru form, fyrirkomulag og nýting þeirra einstök. Öllu er haganlega komið fyrir og í Kotinu sjást kassafjalir í veggjum en það hús var að hluta til byggt upp úr kössum utan af eigum og verkum Einars þegar hann flutti heim frá Kaupmannahöfn. Einar helgaði listinni líf sitt og í sumarhúsinu kemur nægjusemi hans og hógværð vel fram rétt eins og í íbúð þeirra hjóna í listasafninu Hnitbjörg en þar eru listaverkin í öndvegi.